Körfubolti

Lofuðu Óla Óla og fengu hann svo í beina út­sendingu úr búnings­klefanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson var í beinni útsendingu úr búningsklefa Grindvíkinga.
Ólafur Ólafsson var í beinni útsendingu úr búningsklefa Grindvíkinga. Sýn Sport

Ólafur Ólafsson og félagar í Grindavíkurliðinu eru ósigraðir á toppi Bónus deildar karla í körfubolta og hafa litið frábærlega út í upphafi tímabilsins.

Ólafur skoraði tuttugu stig í sigri á Keflavík í síðasta leik og fékk líka mikið hrós í Körfuboltakvöldi.

„Ólafur Ólafsson er að koma inn í þetta tímabil með látum. Frábær í kvöld. Hann var lengi í gang á síðasta tímabili en hann er bara klár í slaginn núna,“ sagði Stefán Árni Pálsson.

Þessir bræður geta bara unnið leiki

„Óli er náttúrulega búinn að vera lengi bara eitt mesta ‚wildcard' í þessari deild. Ég man að Lalli bróðir hans [Þorleifur Ólafsson] var svona líka. Þessir bræður geta bara unnið leiki,“ sagði Benedikt Guðmundsson, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

Klippa: Óli Óla frábær og síðan í beinni úr búningsklefanum

„Mér fannst Óli vera stórkostlegur hérna, kemur með risakörfur og karfa frá Óla, hún telur bara tvöfalt fyrir Grindavík. Þegar hann er á svona degi þá sé ég þá ekki tapa, sérstaklega heima,“ sagði Benedikt.

Gerir honum gott

„Óli hefur þroskast. Hann var þetta ‚wildcard' þar sem hann tók alveg aragrúa af bölvuðum vitleysum ákvörðunum þegar hann var yngri. Núna er hann einhvern veginn í flæðinu. Ég held að það geri Óla rosalega gott að vera með svona góða leikmenn í kringum sig, sérstaklega Kane. Hann gerir svo lítið af mistökum og spilar á styrkleikum sínum,“ sagði Teitur Örlygsson, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

„Hann gerir þetta allt í réttu flæði og það eru svona hlutir sem gera að verkum að Grindavík er búin að vinna alla leikina,“ sagði Teitur.

Afmælisbarnið að fá sér borgara

Eftir að hafa lofað Ólaf og mikilvægt framlag hans til Grindavíkurliðsins þá fékk Körfuboltakvöld hann svo í beinni útsendingu úr búningsklefanum hjá Grindavík.

„Við erum komin í samband aftur á móti við Grindavík. Við erum komin í samband við Ólaf inni í klefa hjá Grindvíkingum. Kristófer Breki, afmælisbarnið, er að fá sér hamborgara við hliðina á Óla. Óli, geggjaður sigur. Hvernig er stemningin í klefanum núna,“ spurði Stefán Árni.

Hér fyrir ofan má sjá umfjöllunina um Óla og viðtalið við hann úr búningsklefanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×