Viðskipti innlent

Stað­festa þunga sekt vegna tuga dulinna aug­lýsinga

Árni Sæberg skrifar
Árvakur er til húsa í Hádegismóum.
Árvakur er til húsa í Hádegismóum. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins, um að ákvörðun Fjölmiðlanefndar um 1,5 milljóna króna sekt yrði ógilt. Árvakur var sektaður vegna 48 dulinna viðskiptaboða á Mbl.is á rúmlega einu ári.

Málið varðaði sekt sem Fjölmiðlanefnd lagði á Árvakur í maí árið 2024 vegna viðskiptaboða sem birt voru á Mbl.is á tímabilinu janúar 2022 til febrúar 2023. Viðskiptaboðin voru í formi frétta um vörur án þess að tekið væri fram að um auglýsingu væri að ræða.

Meðal þeirra fyrirtækja sem hafa fengið fréttir skrifaðar um vörur sínar á Mbl.is með þeim hætti eru Nói siríus, Hagkaup, MS og Te og kaffi.

Fréttirnar sem um ræðir höfðu flest allar sama brag á sér, þar sem fjallað er um vöru fyrirtækjanna á jákvæðan hátt, án þess að fréttin væri merkt sem auglýsing eða samstarf við viðkomandi fyrirtæki. Slíkar duldar auglýsingar eru bannaðar með lögum um fjölmiðla.

Birt orðrétt upp úr tilkynningu

Fréttirnar birtust á Smartlands- og matarvef mbl.is. Fjölmargar auglýsingar, eða 48 talsins, dulbúnar sem fréttir, voru tíndar til í ákvörðun Fjölmiðlanefndar. Má þar nefna auglýsingar fyrir nýjar vörur frá Nóa siríus, þar sem fyrirsögnin er „Nýja nammið flýgur úr hillunum“, og „Splunkunýtt súkkulaði rifið úr hillunum“. 

Auglýsingar þar sem umfjöllunarefnið er „besta gráðaostasósan á markaðnum í dag“ sem gerðar voru fyrir Hagkaup eru auk þess nefndar. „Ný bragðtegund af Hleðslu komin á markað“ er auglýsing sem dulbúin var sem frétt fyrir MS og „KEA skyr eins og þú hefur aldrei séð það áður“ einnig.

Umfjöllun um nýtt KEA skyr frá Mjólkursamsölunni var birt orðrétt á Mbl fjórum dögum efitr að hún birtist á vef MS.

Árvakur vísaði til þess í andsvörum sínum að fjölmiðill hefði tjáningarfrelsi og frelsi til að meta það sem teldist fréttnæmt. Veitan hefði auk þess ekki fengið greitt frá fyrirtækjunum, en það væri skilyrði svo að umfjöllun teldist auglýsing en ekki frétt.

Fjölmiðlanefnd hafnaði þeim rökum og vísaði til þess að tilvist greiðslu eða annars endurgjalds sé ekki nauðsynleg forsenda í þessu sambandi, enda geti fjölmiðlaefni verið þessarar gerðar án þess að nokkur greiðsla komi fyrir. Þá myndi slíkt skilyrði vinna gegn banninu enda örðugt að sanna að greitt hafi verið fyrir umfjöllun.

Niðurstaða Fjölmiðlanefndar var því að sekta Árvakur um 1,5 milljónir króna.

Fengu ekki greitt en brutu samt lögin

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp þann 11. nóvember síðastliðinn, segir að Árvakur hafi höfðað mál á hendur Fjölmiðlanefnd og íslenska ríkinu og krafist þess að sektarákvörðunin yrði ógilt með dómi og að ríkinu yrði gert að endurgreiða sektina.

Í málinu hafi virst óumdeilt að Árvakur hafi ekki fengið greitt fyrir umræddar umfjallanir frá þeim fyrirtækjum sem haft gátu hag af þeim. Það sé meðal annars stutt svörum frá fyrirtækjunum sem um ræðir.

Í niðurstöðu dómsins segir að dómurinn taki undir það með Fjölmiðlanefnd að efni, eðli og framsetning á umræddum umfjöllunum hafi verið með þeim hætti að þær verði taldar þjóna auglýsingamarkmiðum án þess að vera merktar sem slíkar. 

Fjölmiðlaveitur beri ábyrgð á því að viðskiptaboð sem þær birta í miðlum sínum séu í samræmi við fjölmiðlalög. Stefnandi hafi meðal annars byggt á því að einfaldlega væri um að ræða fréttir um neysluvörur og nýjungar sem veki áhuga almennings. Að mati dómsins sé þó ótvírætt að framsetning á vörumerkjum umræddra fyrirtækja í umfjöllununum sé með þeim hætti að telja verði að þar sé um óheimil dulin viðskiptaboð að ræða. Breyti engu í því efni þó að ekki hafi verið sýnt fram á að endurgjald hafi komið fyrir miðlun þeirra.

Því hafi í umræddri umfjöllun á Mbl.is falist brot á bannákvæði fjölmiðlala við miðlun dulinna viðskiptaboða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×