Innlent

Magnús Guð­munds­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Magnús á sólríkum sumardegi árið 2020.
Magnús á sólríkum sumardegi árið 2020. Magnús Elías Guðmundsson

Magnús Elías Guðmundsson, blaða- og kvikmyndagerðarmaður, er látinn 71 árs að aldri eftir erfið veikindi síðustu ár. Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í dag.

Magnús starfaði í mörg ár sem blaðamaður fyrir dönsku fréttastofuna Ritzau, bæði í Danmörku og á Íslandi. Hann stofnaði síðar kvikmyndafyrirtækið Megafilm og framleiddi þætti og heimildarmyndir.

Magnús vakti fyrst alþjóðaathygli þegar hann gerði heimildarmyndina Lífsbjörg í Norðurhöfum árið 1989. Hún var gerð fyrir alþjóðamarkað og því ensku. Grænfriðungar fóru fram á lögbann á Lífsbjörg í Norðurhöfum árið 1989 sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu en því var hafnað.

Magnús var í miðpunkti heimspressunnar árið 1993 þegar fréttaskýringaþátturinn 60 minutes á Nýja-Sjálandi fjallaði um að Grænfriðungar hefðu stundað víðtækar njósnir um Magnús vegna heimildarmyndarinnar. Í umfjöllun Pressunnar sem komst yfir skjöl frá Grænfriðungum kom fram að Magnús hefði verið samtökunum sérstaklega hugleikinn „og fylla upplýsingar um hann og mynd hans hundruð blaðsíðna“.

Magnús sagði þetta ekki koma honum á óvart og sýna að Grænfriðungar væru vafasöm samtök og framkoma þeirra æði sjúkleg. Var Magnús kallaður Hvala-Magnús eða Magnús í Hvalnum í umfjölluninni. Fjórum árum síðar gerði hann heimildarmyndina Paradís endurheimt sem sýnd var í sjónvarpi á Norðurlöndum.

Magnús glímdi við erfið veikindi síðustu fimm árin og lést í Kaupmannahöfn þann 26. október þar sem útför hans fór fram. Hann lætur eftir sig fimm uppkomin börn og barnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×