Erlent

Pras úr Fugees dæmdur í fjór­tán ára fangelsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pras á sviði árið 2023, ásamt félögum sínum í Fugees.
Pras á sviði árið 2023, ásamt félögum sínum í Fugees. Getty/Scott Dudelson

Tónlistarmaðurinn Prakazrel „Pras“ Michel hefur verið dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir að taka við peningum frá erlendum aðila og nota þá í pólitískum tilgangi.

Pras, sem er þekktastur fyrir að vera einn meðlima Fugees ásamt Lauryn Hill og Wyclef Jean, var fundinn sekur árið 2023 um að hafa tekið við mörgum milljónum dala frá malasíska auðkýfingnum Low Taek og látið hluta fjársins renna í kosningasjóði Obama í aðdraganda forsetakosninganna árið 2012, í gegnum skáldaða einstaklinga.

Þá freistaði hann þess að hafa afskipti af rannsókn yfirvalda á Low, sem sætir ákæru í Bandaríkjunum fyrir að draga sér 4,5 milljarða dollara úr malasíska þjóðarsjóðnum 1MDB.

Ákæruvaldið í málinu hafði farið fram á lífstíðarfangelsi, þar sem þeir sögðu Michel hafa lagt á ráðin gegn landi sínu og þjóð. Verjendur tónlistarmannsins segja fjórtán ár hins vegar langt umfram efni.

Hann hyggst áfrýja bæði dómnum og refsingunni.

Low, sem hefur verið búsettur í Kína, var meðal fjárfesta í myndinni The Wolf of Wall Street, þar sem Leonardo DiCaprio var í aðalhlutverki. DiCapro var kallaður til vitnis í málinu gegn Michel.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×