Kína hefur varpað þunga sínum á vogarskál Rússlands í stríðinu í Úkraínu, en það virðist hafa fengið minni athygli meðal evrópskra leiðtoga en efni standa til. Frá því að hafa veitt Moskvu fjárhagslega líflínu til afhendingar á lykiltækni til rússneska vopnaiðnaðarins hefur svonefnt „takmarkalaust“ samstarf ríkjanna tvær augljósar og víðtækar afleiðingar fyrir gang stríðsins – og um leið framtíðaröryggi Evrópu.
Í byrjun árs hélt ég því fram að minnkandi áhuga ráðamanna í Washington á varnarskuldbindingum Bandaríkjanna gagnvart Evrópu gætu freistað Peking til að „leika Kissinger“ til að reka fleyg í samstarfið yfir Atlantshafið. Heilla Evrópusambandið með gylliboðum og pólitískri góðvild til að veikja áhrif Bandaríkjanna. Nú, nokkrum mánuðum síðar, er tímabært að meta hvernig það hefur þróast.
Í febrúar, þegar stjórnin í Washington sýndi vaxandi fjandskap í garð Evrópu og margir fóru að draga opinberlega í efa öryggistryggingar Bandaríkjanna, hófu kínverskir ráðamenn umfangsmikla diplómatíska herferð á meginlandinu. Þeir funduðu með embættismönnum á Öryggisráðstefnunni í Munchen og í fjölda höfuðborga, þar á meðal hjá einstaklingum sem hingað til höfðu fengið takmarkaða athygli vegna gagnrýninnar afstöðu sinnar gagnvart Kína.
Kínverjar hefðu getað sett fram óskalista
Frá innrás Rússlands í Úkraínu árið 2022 hafa evrópskir leiðtogar beinlínis beðið Peking um að hjálpa til við að binda enda á átökin. Þegar Donald Trump færði fókus Bandaríkjanna frá Evrópu skapaðist kjöraðstaða fyrir Kína til að bregðast við. Evrópa hefði verið tilbúin að greiða hátt verð fyrir slíka aðstoð. Á óskalista Peking hefðu með réttu getað verið loforð um afskiptaleysi á Indó-Kyrrahafssvæðinu ásamt auknum aðgangi að mörkuðum og tækni Evrópu. Að Kína yrði hluti af öryggistryggingum Evrópu sem hluti af friðarsamningi miðlað af Peking — hugmynd sem áður hefði þótt algjörlega óhugsandi — hefði verið diplómatískur stórsigur fyrir kínversk stjórnvöld.
Ef Kína hefði bundið enda á umfangsmesta stríðsátök í Evrópu frá 1945 hefði það þess vegna getað krafist nánast hvaða skilyrða sem er.
Þegar hin gamalgrónu tengsl Evrópu yfir Atlandshafið virtust í huga margra vera að veikjast, þá var margt sem benti til að pendúllinn í átt til sterkara bandalags við Kína væri samhliða næstum óstöðvandi. Álfan treystir á sjaldgæfa jarðmálma frá Kína og misjafn markaðsaðgangur aðildarríkja ESB sýndi að sum ríki voru þegar farin að horfa í auknum mæli til Peking.
Áhrif Kína á Moskvu hefðu getað orðið burðarás í víðtæku samkomulagi. Kína er núna stór birgir framleiðslutækja til rússnesks vopnaiðnaðar, þar á meðal vegna nýrrar kínverskrar skotfæraverksmiðju í Hvíta-Rússlandi. Kínversk kaup á rússneskri olíu eru jafnframt líflína fyrir Kreml. Með því að nýta sér þetta vald til að draga úr átökunum hefði Kína getað tryggt sér lykilstöðu í evrópskum öryggismálum og notið aukinnar velvildar í álfunni. Ef Kína hefði bundið enda á umfangsmesta stríðsátök í Evrópu frá 1945 hefði það þess vegna getað krafist nánast hvaða skilyrða sem er, meðal annars þegar kemur að kaupum á kínverskum rafbílum og 5G búnaði.
Spánn er gott dæmi um hvernig slík straumhvörf í alþjóðamálum gætu litið út. Ráðamenn þar í landi hafa ekki látið undan þrýstingi frá Washington um aukin hernaðarútgjöld og í staðinn sóst eftir nánara samstarfi við Peking. Kína gat með réttu gert ráð fyrir, núna þegar Bandaríkin eru að beina athygli sinni frá Evrópu, að fleiri lönd fylgdu í kjölfarið.
Setja allt undir í að styðja við veikburða nágranna
En í stað þess að beita gulrótum gagnvart Evrópu hefur Peking fremur tvíeflt stuðning sinn við Moskvu. Sérfræðingar telja að 80 til 90 prósent rússneskrar vopnaframleiðslu byggi nú á kínverskum búnaði eða íhlutum. Ef Kína drægi sig til baka myndi rússneski herinn annaðhvort dragast hratt saman eða neyðast til umfangsmikillar herkvaðningar.
Kína hefur því valið að setja allt undir í styðja við veikburða nágranna. Með því leggur það blessun sína yfir árásargirni og röskun á daglegu lífi Evrópu og hverfur frá öllum tilburðum til að verða einhvers konar ný geópólitísk þungamiðja fyrir álfuna. Rök kínverskra ráðamanna eru augljós. Jafnvel undir núverandi stjórn í Washington er erfitt að slíta gömlu nánu böndin yfir Atlantshafið. Rússland er hins vegar í örvæntingarfullri stöðu. Vladimir Pútín getur hvorki stöðvað né hægt á stríðinu án þess að tefla stöðu sinni í hættu. Án kínverskrar aðstoðar þyrfti hann að skattleggja og virkja millistéttina, sem hann hefur markvisst reynt að forðast, og þannig áttu hættu á að magna upp víðtæka óánægju meðal rússnesks almennings. Hann man vel hvernig mannfallið í Afganistan flýtti fyrir falli Sovétríkjanna, saga sem hann hefur oft harmað.
Stuðningurinn við Rússland er stefnumarkandi fyrir framgang stríðsins á meðan viðskiptin við Úkraínu eru einungis leið til að hagnast á hörmungum þess.
Kína heldur því fram að kínversk fyrirtæki megi einnig selja Úkraínu búnað. Það stenst ekki skoðun. Úkraína fær einungis borgaralega íhluti, ekki dróna eða íhluti í eldflaugar líkt og Rússland. Á sama tíma takmarkar Peking bæði magn og gæði þess sem ratað getur til Úkraínu og tryggir þannig yfirburði Moskvu í stríðinu. Stuðningurinn við Rússland er stefnumarkandi fyrir framgang stríðsins á meðan viðskiptin við Úkraínu eru einungis leið til að hagnast á hörmungum þess.
Að hafa bein áhrif á rússneskar hernaðaraðgerðir í Evrópu – í Úkraínu eða annars staðar – er mikilvægt strategískt afl sem Kína vill viðhalda og útvíkka. Á meðan Rússar halda áfram árásum sínum á Úkraínu, ásamt því að ögra ýmsum NATO-ríkjum með fjölþáttaógnum, er Evrópa upptekin við eigin öryggisvandamál og ólíkleg til að geta stutt Bandaríkin í hugsanlegum átökum í Asíu. Samtímis öðlast Peking aukin áhrif á ákvarðanir stjórnarinnar í Kreml.
Kína gæti jafnframt notað þetta vald til að ná yfirráðum yfir verðmætum hlutum rússneska hagkerfisins. Þar sem Kína gegnir lykilhlutverki í rússneskum vopnaiðnaði er líklegt að Kreml greiði með eignarhlutum fremur en reiðufé. Dragist stríðið á langinn gæti Kína eignast aukin áhrif í rússneskum fyrirtækjum og beint sjónum sínum að ríkulegum auðlindum landsins.
Refsiaðgerðir Vesturveldanna gagnvart Rússlandi og langdrægar árásir Úkraínu hafa skaðað getu Rússa til að vinna og flytja út olíu og hrávöru. Sumir af þeim innviðum sem hafa verið skemmdir þeirra er aðeins hægt að endurbyggja með vestrænni tækni sem Rússland getur ekki keypt. Kína getur hins vegar þróað eða keypt þá tækni og þannig orðið enn mikilvægari hlekkur fyrir rússneska hagkerfið, sem hefur lítið bolmagn til að standast slíkan þrýsting.
Sækist eftir því að brjóta niður samstöðu Vesturlanda
Kínverjar muna sögu sína vel. Á 19. öld hertók Rússland víðfeðm svæði af Qing-ættinni. Núverandi leiðtogar Kína eru uppteknir af því að „leiðrétta söguleg ranglæti“, helsta réttlæting að baki krafna þeirra í Suður-Kínahafi og gagnvart Taívan. Þeir hafa ekki enn talað opinberlega um að endurskoða norðaustur landamærin, en eftir því sem áhrif þeirra gagnvart Moskvu aukast gæti sú krafa komið fyrr en menn ætla.
Hversu háð Rússland er orðið Kína nú um stundir er nánast spurning um tilvist ríkisins. Án stuðnings Kína stæði stjórn Pútíns frammi fyrir alvarlegum vanda. Þetta ójafnvægi í samstarfi ríkjanna gerir Rússland að hálfgerðum fylgihnetti við Kína – enduróm af undirgefni Moskvu á miðöldum gagnvart Mongólum. Ef Rússland yrði knúið til að senda hermenn til Indó-Kyrrahafs vegna átaka Kína væri það fullkomin kaldhæðni.
Heildarmyndin er því skýr. Kína hefur ekki hug á því að endurmeta tengsl sín við Evrópu. Ávinningurinn af því að styðja Moskvu gegn Evrópu fellur fullkomlega að langtímastefnu Peking, á meðan ábatinn af nánari samvinnu við Evrópu er óviss. Kína hefur engan áhuga á að koma friði á eða endurbyggja Úkraínu, þvert á barnslegar væntingar sumra evrópskra ráðamanna. Þess í stað horfir Peking til þess að byggja upp pólitískt og efnahagslegt kerfi með Rússland í hlutverki undirgefins bandamanns.
Evrópa stendur ekki lengur einungis frammi fyrir Rússlandi, veikburða ríki með árásargjarna stefnu, heldur sífellt öflugra bandalagi sem beinlínis sækist eftir því að brjóta niður samstöðu Vesturlanda.
Pútín nýtur hins vegar einnig beins ávinnings af þessu fyrirkomulagi. Jafnvel fyrir stríð var hið spillta, úrelta og miðstýrða hagkerfi sem hann hafði komið upp orðið ósjálfbært. Til að halda stjórn sinni á lífi bauð hann Rússum nýjan samfélagssáttmála, byggðan á löngun til að endurvekja fyrra heimsveldi. Rússar hafa tekið þeirri sýn fagnandi og virðast ófúsir að horfast í augu við kostnaðinn. Staða Pútíns heima fyrir byggist nú alfarið á hernaðarárangri og landvinningum, sem hann getur ekki náð án áframhaldandi stuðnings Kína.
Það þjónar að minnsta kosti ekki hagsmunum Bandaríkjanna að skilja Evrópu eftir nánast upp á miskunn og náð Kína og Rússlands. Veik Evrópa, sérstaklega ef Rússland víkkar út átökin í álfunni, gæti varla veitt Bandaríkjunum aðstoð. Rússland er sannarleg líklegt til að styðja Kína pólitískt og hernaðarlega kæmi til mögulegra átaka í Asíu.
Evrópa stendur því ekki lengur einungis frammi fyrir Rússlandi, veikburða ríki með árásargjarna stefnu, heldur sífellt öflugra bandalagi sem beinlínis sækist eftir því að brjóta niður samstöðu Vesturlanda. Kína hefur tekið sína ákvörðun. Nú verða Evrópa og Bandaríkin að gera sér fulla grein fyrir afleiðingunum fyrir öryggis– og varnarmál sem náið samstarf Rússlands og Kína hefur – ekki bara í Evrópu heldur langt út fyrir álfuna.
Lausleg þýðing á grein sem birtist eftir Gabrielius Landsbergis í tímaritinu Foreign Policy þriðjudaginn 2. desember.
Höfundur er fyrrverandi utanríkisráðherra Litháens á árunum 2020 til 2024 og núna gestafræðimaður við Freeman Spogli-stofnunina í alþjóðastjórnmálum við Stanford-háskóla.
