Skoðun

„Full­kominn fjand­skapur í garð smá­ríkis“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Við ákvörðun heildarafla í efnahagslögsögu Evrópusambandsins á dögunum og úthlutun afla til ríkja þess var farið með grófum hætti gegn hagsmunum Írlands að sögn írskra stjórnmálamanna og hagsmunasamtaka þarlendra sjómanna. Regla sem samið var um við forvera sambandsins á áttunda áratug síðustu aldar og tryggja átti ákveðinn lágmarks rétt írskra fiskiskipa til veiða í lögsögu Írlands, hafi verið höfð að engu einkum fyrir tilstilli fjölmennustu ríkja Evrópusambandsins.

Haft er eftir Pat „the Cope“ Gallagher, talsmanni stjórnmálaflokksins Fianna Fáil í sjávarútvegsmálum, sem myndar núverandi ríkisstjórn Írlands, í írskum fjölmiðlum að ljóst sé að Evrópusambandið hafi algerlega brugðist Írum. Framganga Frakklands, Þýzkalands, Póllands og Hollands í málinu fæli í sér „fullkominn fjaldskap í garð smáríkis“ og það að hafa að engu rétt Írlands, sem samið hefði verið um við forvera sambandsins fyrir fjórum áratugum, fæli í sér „rándýrshegðun.“

„Evrópusambandið starfrækir kerfi sem byggir á tvöföldu siðgæði eftir því hvaða ríki sambandsins eiga í hlut,“ sagði Gallagher. Írland stæði þar höllum fæti gagnvart stærri ríkjum. Á sama tíma og komið væri fram við Íra með þessum hætti veiddu fiskiskip frá áðurnefndum ríkjum í írskri efnahagslögsögu án þess að mikið eftirlit væri með því. „Írar áttu að hafa tryggingu fyrir ákveðinni hlutdeild í aflaheimildum á þeirra eigin miðum. Þeirri vernd hefur nú verið kippt í burtu.“

Vægi ríkja innan í stofnunum Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði vægi landsins þannig 0,08% í ráðherraráði þess, valdamestu stofnuninni, sem er á við einungis 5% hlutdeild í einum þingmanni á Alþingi. Írland er hins vegar 13 sinnum fjölmennara en Ísland. Hver yrði staða okkar Íslendinga innan Evrópusambandsins þegar komið er fram við Íra með þessum hætti?

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×