Körfubolti

Pa­vel hjálpar Grind­víkingum

Sindri Sverrisson skrifar
Pavel Ermolinskij stýrði Tindastóli til fyrsta Íslandsmeistaratitils félagsins, vorið 2023.
Pavel Ermolinskij stýrði Tindastóli til fyrsta Íslandsmeistaratitils félagsins, vorið 2023. vísir/Hulda Margrét

Körfuboltasérfræðingurinn Pavel Ermolinskij er mættur aftur í þjálfun, að minnsta kosti í kvöld, því hann er til aðstoðar hjá Grindvíkingum í stórleiknum við Stjörnuna í VÍS-bikarnum.

Pavel hefur haldið sig frá þjálfun síðan hann hætti hjá Tindastóli. Hann tók við liðinu í janúar 2023 og stýrði því í kjölfarið til fyrsta Íslandsmeistaratitilsins í sögu félagsins, en fór svo í veikindaleyfi vorið 2024 og hefur ekki þjálfað síðan.

Hann fór svo mikinn í umfjöllun um Bónus-deildina á síðustu leiktíð sem sérfræðingur, bæði í sjónvarpi og í eigin hlaðvarpsþáttum með vini sínum Helga Má Magnússyni.

Það er einmitt Helgi sem að Pavel aðstoðar í bikarslagnum við Stjörnuna í kvöld en Helgi hefur verið aðstoðarmaður Jóhanns Þórs Ólafssonar í vetur.

Jóhann er kominn í ótímabundið leyfi, vegna veikinda eiginkonu sinnar, en undir hans stjórn hefur Grindavík verið á toppi Bónus-deildarinnar í vetur.

Jóhann sendi stuðningsmönnum Grindavíkur skilaboð í gegnum miðla körfuknattleiksdeildarinnar í síðustu viku.

„Síðastliðinn mánudag fengum við hjónin þær fréttir að kona mín Sif Rós hefði greinst með MND-taugasjúkdóm. Af þeim ástæðum hef ég tekið ákvörðun um að fara í ótímabundið leyfi frá þjálfun. Helgi Már mun stýra liðinu í minni fjarveru og gera það með sóma.

Ég kem svo tvíefldur til baka og klára þetta með ykkur,“ skrifaði Jóhann.

Af viðtali við Helga á RÚV fyrir bikarleikinn í kvöld að dæma verður Pavel til aðstoðar þann tíma sem Jóhann verður fjarverandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×