Skoðun

Hvers vegna læra börnin þín ekki neitt? Svarið gæti verið í speglinum

Jónas Sen skrifar

Það er allt að fara á hliðina í skólamálaumræðunni. Inga Sæland er sögð tala „mannamál“ — og fólk annaðhvort klappar eða froðufellir yfir „popúlisma“. En á meðan fullorðna fólkið rökræðir orð, er annað að gerast í kyrrþey: börn eru að detta aftan úr lærdómi, og enginn vill bera ábyrgð.

Og stundum er svarið óþægilega einfalt: það er í speglinum.

Sem píanókennari sit ég dálítið utan við þennan pólitíska hávaða, en ég hef samt einstakt útsýni yfir vígvöllinn. Píanókennsla er nefnilega einn tærasti mælikvarðinn á ástandið í uppeldi og menntun í dag. Af hverju? Vegna þess að píanóið lýgur ekki.

Píanóið lýgur ekki

Ráðherrann hefur talað tæpitungulaust um að skólakerfið standi höllum fæti og grunnskólinn sé hættur að virka sem jöfnunartæki. Í grunnskóla getur barn „flotið með“ í nokkur ár í ákveðinni kerfislægri meðvirkni. Þar er hægt að skýla sér bak við hugtök eins og „einstaklingsmiðað nám“ og „sveigjanleika“. Á vondum degi þýðir það að enginn þorir að segja upphátt að barnið kunni hvorki að lesa né draga til stafs, af ótta við að styggja einhvern.

En píanóið leyfir þetta ekki.

Ég sé það í hverri viku: Barnið mætir, brosir, opnar bókina. Mamman eða pabbinn afsakar: „Það var svo brjálað í vikunni.“ Barnið segir: „Ég hafði engan tíma.“ Svo setur það hendur á hljómborðið og sannleikurinn kemur í ljós. Enginn feluleikur er í boði. Ef þú leggur ekki vinnuna í nóturnar, þá kemur ekki tónlist. Raunveruleikinn er miskunnarlaus.

„Sveigjanleiki” sem stundum verður skálkaskjól

Það er ekki séríslenskt að menntakerfi glími við orðræðu sem hljómar fallega en getur falið óþægilegan sannleika. „Einstaklingsmiðað nám“ er frábær hugmynd þegar hún felur í sér raunverulegan stuðning og skýr markmið. En hún verður hættuleg þegar hún verður að tyggjói, að einhverju teygjanlegu og formlausu þar til ekkert stendur eftir.

Og þegar ekkert er mælt, þá er ekkert leiðrétt. Þá er heldur ekkert sem lagast.

Þrír stólpar, og heimilið er einn þeirra

Menntun hvílir á þremur stólpum: innleggi kennarans, ástundun nemandans og aðhaldi foreldra.

Mér er það ánægja að geta fullyrt að meirihluti foreldra er stórkostlegur. Ég mæti daglega fólki sem keyrir barnið í gegnum hálfgerða stórhríð, minnir á æfingarnar, hlustar á nýja lagið og sýnir einlægan áhuga. Þetta eru hetjurnar í kerfinu. Þær eru liðsmenn sem vita að án framlags heima getur kennarinn lítið gert í einum eða tveimur hálftímum á viku.

En svo er hinn hópurinn: háværi minnihlutinn sem ég leyfi mér að kalla snjóruðningsforeldra.

Snjóruðningsforeldrið: þegar kennarinn verður vandamálið

Snjóruðningsforeldrið telur það hlutverk sitt að ryðja öllum óþægindum frá barninu sínu. Verkefni sem er leiðinlegt? Slátrum því bara. Endurgjöf sem stingur? Þá er hún „óviðeigandi“. Kröfur um ástundun? Þær eru „of miklar“ og kennarinn er ekki nógu skemmtilegur.

Ef ég, sem kennari, bendi á að nemandinn hafi ekki snert hljóðfærið í viku, þá ætti það að vera einföld staðreynd. Fagleg endurgjöf. En stundum verður hún að einhvers konar árás og allt í einu er ég orðinn vandamálið.

Þarna erum við búin að tapa áttum. Því óþægindi eru ekki ofbeldi. Aðhald er ekki harðstjórn. Og agi er ekki niðurlæging. Þetta eru verkfæri sem barnið þarf til að geta lært, staðið af sér mótlæti og upplifað sigur sem er raunverulegur en ekki bara innantómt hrós.

Ef við tökum þetta frá barninu, þá hrifsum við frá því meira en nóturnar. Við þurrkum burt lærdóminn til að mæta kröfum og sigrast á erfiðleikum.

Spegillinn: liðmaður eða snjóruðningstæki?

Ef Inga Sæland talar mannamál um kerfið, þá þurfum við foreldrar að tala mannamál við okkur sjálf. Við þurfum að spyrja okkur: Erum við liðsmenn sem styðjum barnið í gegn um verkefnin eða erum við snjóruðningstæki sem ýta þeim í burtu?

Ég segi þetta ekki til að niðurlægja fólk. Og ég segi þetta alls ekki um alla. Margir hafa ekki sömu tækifæri vegna vinnuálags, fjárhagsvandamála eða annarra áskorana. Kerfið ber ábyrgð á að styðja þau betur. Það er líka hluti af jöfnunartæki samfélagsins.

En í sumum tilfellum, þar sem tækifærin eru til staðar, virðist ábyrgðin einfaldlega gleymast. Þá verður auðveldara að verja barnið fyrir verkefninu en að standa með því í gegnum viðfangsefnið.

Lausnir sem virka í alvöru

Til að bæta þetta þurfum við ekki bara gagnrýni heldur hagnýtar lausnir. Til dæmis gæti kerfið innleitt auðskiljanlegri einkunnagjöf, eins og ráðherrann hefur nefnt, til að gera foreldrum auðveldara að fylgjast með framvindu barnsins og grípa inn fyrr.

Sveitarfélög gætu líka boðið upp á ókeypis námskeið fyrir foreldra um hvernig þeir geta stutt við nám heima: einfaldar aðferðir við lestur, rútínur, skipulag æfinga. Ekki til að skamma fólk, heldur til að gera námið mögulegt. Og svo framvegis.

Falska hljómsveitin

Eins og áður sagði lít ég á þetta með augum tónlistarkennarans. Píanóið lýgur ekki. Að búa til fallega tónlist krefst aga, vinnu og samstöðu.

Ef við þorum ekki að viðurkenna það, ef við forðumst að horfa í spegilinn og sjá okkar eigin þátt, þá endum við öll í falskri hljómsveit þar sem enginn kann að spila en allir heimta lófatak.

Höfundur er tónlistarkennari og gagnrýnandi.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×