Innlent

Boðaður á fund í ráðu­neytinu með stuttum fyrir­vara

Smári Jökull Jónsson skrifar
Inga Sæland og Magnús Þór Jónsson hittust í ráðuneytinu í dag.
Inga Sæland og Magnús Þór Jónsson hittust í ráðuneytinu í dag. Vísir/Lýður Valberg/Vilhelm

Þung orð voru látin falla um mennta- og barnamálaráðherra eftir viðtal um menntamál í gær. Ráðherra var sögð dreifa falsfréttum og þurfa menntun í málaflokknum. Formaður Kennarasambandsins var boðaður á fund í ráðuneytinu í dag.

Viðtal við Ingu Sæland í Kastljósinu í gær hefur vakið töluverða gremju í kennarasamfélaginu. Sérstaka athygli vöktu orð Ingu um einkunnakerfi í grunnskólum. Fullyrti Inga að aðeins væru gefnar einkunnir í bókstöfum í 10. bekk þegar rétt er að einkunnir eru gefnar í bókstöfum og litatáknum á öllum stigum grunnskólans og hefur verið svo um þónokkurt skeið.

„Skólar geta jafnvel gefið einkunnir í litum og alls konar en það hefur engum dottið það í hug held ég,“ sagði Inga áður en Urður Örlygsdóttir tók orðið og sagðist ekki viss um að svo væri.

„Jú jú, það er þannig. Ég er nú barna- og menntamálaráðherra alveg síðan í fyrradag þannig að ég veit þetta þó,“ sagði Inga brosandi.

„Skammastu þín kennaraskömm“

Á samfélagsmiðlum má sjá gagnrýni vegna viðtalsins. Lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands segir leitt þegar ráðherra sé fremstur í flokki upplýsingaóreiðu og falsfrétta og þá veltir skólastjóri í Kópavogi fyrir sér merkingu orðsins besserwisser og segir orðið þekkingarhrokagikkur lýsa Ingu Sæland best.

Kennari á Sauðárkróki segir að mennta þurfi Ingu um málaflokkinn og hún deildi jafnframt hljóðskilaboðum sem hún fékk send frá óþekktum aðila eftir að hafa gagnrýnt Ingu í færslu á Facebook.

„Að þú skulir dirfast að drulla yfir hana skömmin þín og skammastu þín kennaraskömm.“

„Skólakerfið er ekki ónýtt“

Formaður Kennarasambandsins var boðaður á fund með ráðherra í dag með skömmum fyrirvara. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var um að ræða samráðsfund nýs ráðherra með hagsmunaðilum og gera má ráð fyrir að þar hafi mál síðustu daga verið rædd.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar, sagði á Alþingi í dag að mikilvægt væri að henda ekki fram sleggjudómum. Hún hóf umræðu um málið undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar var til svars og sagðist ánægð með ástríðu nýs ráðherra.

„Skólakerfið er ekki ónýtt, það er ekki þannig. Það er með götum, við vitum það. Það eru göt hér og þar út frá meðal annars frá krefjandi áskorun samtímans sem við verðum öll sem eitt að sammælast um að laga í samstarfi við skólasamfélagið,“ sagði Þorgerður Katrín en Framsóknarflokkurinn hefur óskað eftir að sett verði á fót þverpólitísk nefnd í málaflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×