Erlent

Stuðningur við Græn­land ó­metan­legur og hvetur Ís­lendinga til að mæta

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Julie Rademacher, formaður Uagut, Landssamtaka Grænlendinga í Danmörku, ræddi við fréttastofu á skrifstofu samtakanna í Kaupmannahöfn í dag.
Julie Rademacher, formaður Uagut, Landssamtaka Grænlendinga í Danmörku, ræddi við fréttastofu á skrifstofu samtakanna í Kaupmannahöfn í dag. Vísir/Elín

Formaður Landssamtaka Grænlendinga í Danmörku hvetur Íslendinga og aðra sem búsettir eru í Danmörku til að sýna samstöðu með Grænlendingum í verki með því að mæta á samstöðumótmæli sem skipulögð hafa verið víðsvegar um Danmörku á laugardaginn. Hún segir Grænlendinga þurfa á andlegri fyrstu hjálp að halda í ljósi málflutnings Bandaríkjaforseta um að vilja eignast landið, með einum eða öðrum hætti.

Hún segir að stuðningur Íslendinga og annarra við Grænlendinga á þessum erfiðu tímum skipti sköpum, og slíkum stuðningi muni Grænlendingar aldrei gleyma.

Nokkur grænlensk samtök hafa skipulagt mótmæli og samstöðufundi með Grænlandi og Grænlendingum í fjórum stærstu borgum Danmerkur í hádeginu á laugardaginn, en mótmælt verður einnig í Grænlandi.

Vona það besta en búa sig undir það versta

„Við vonum að það mæti margir. Svo ef það eru Íslendingar eða Færeyingar eða aðrir hér í Danmörku, þá geta þau mætt og sýnt samstöðu. Komið endilega á samstöðufundinn, það myndi hafa mikla þýðingu fyrir okkur,“ segir Julie Rademacher, formaður Uagut, Landssamtaka Grænlendinga í Danmörku, í samtali við fréttastofu.

Hún segir að um það bil fjórði hver Grænlendingur sé búsettur í Danmörku, og því búist hún við nokkru fjölmenni. Hún viti að það eigi líka við um marga Íslendinga sem hafi flutt til Danmerkur.

Julie sagðist mátulega bjartsýn fyrir fund utanríkisráðherra Grænlands og Danmerkur með ráðamönnum í Washington í dag þegar við ræddum við hana fyrr í dag.

„Við vonum það besta en búum okkur undir það versta. Við erum vön að standa af okkur storminn í Grænlandi, við erum vön erfiðum veðuraðstæðum og nú erum við í þessum geópólitíska stormi. Svo við verðum að finna okkar innri kraft og ró og einblína á það sem við getum sjálf stjórnað akkúrat núna. Með andlegri fyrstu hjálp, að tala saman, borða grænlenskan mat og hafa það huggulegt og bíða,“ segir Julie. Nánar var rætt við hana og vendingar dagsins í kvöldfréttum Sýnar í kvöld.

Segja má að niðurstaða fundarins í Washington hafi í stuttu máli verið sú að bandarísk stjórnvöld annars vegar, og grænlensk og dönsk hins vegar, séu sammála um að vera ósammála. Trump-stjórninn er ennþá á þeirri skoðun að Bandaríkin verði að eignast Grænland, en því leggjast hin ríkin alfarið gegn. Þá stendur til að setja á fót starfshóp embættismanna sem falið verður að leita lausna í deilunni og leiða til samstarfs.

Julie segir að það hafi vissulega gripið um sig ákveðinn ótti meðal Grænlendinga, bæði í Grænlandi og annars staðar. Því hafi samtök Grænlendinga í Danmörku tekið sig saman og skipulagt samstöðufundi í þeirri viðleitni að leggja sitt af mörkum í baráttunni um Grænland.

Hefur reynt á sálartetur Grænlendinga

„Ég veit líka að það eru einhverjir í Grænlandi sem eru að hugsa um að flytja hreinlega til Danmerkur vegna alls þessa sem er í gangi. Svo það er mikilvægt fyrir okkur að senda skilaboð um að sama hvað verður þá erum við að sjálfsögðu tilbúin að hjálpa,“ segir Julie.

Það sé gríðarlega mikilvægt að halda ró sinni, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, og sýna samstöðu. Hún fagnar því að dönsk og grænlensk stjórnvöld hafi mætt samstillt til fundarins með Marco Rubio og JD Vance í dag. Á sama tíma og hún undirstrikar að Grænlendingar eigi sjálfir að fá að ráða örlögum sínum og um það hvort þeir á endanum sækist eftir sjálfstæði frá Danmörku, þá skipti mestu nú að leyfa Trump-stjórninni ekki að komast upp með að reyna að ala á sundrung milli Dana og Grænlendinga.

„Grænlendingar eru allir undir miklum andlegum þrýstingi og þess vegna hefur það gríðarlega þýðingu að finna stuðning frá mörgum löndum og mörgum þjóðum. Svo gerið eitthvað, sýnið stuðning, það skiptir okkur svo miklu máli og við munum aldrei gleyma því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×