Fótbolti

KR í sam­starf við akademíu í Gana

Sindri Sverrisson skrifar
 Frá vinstri: Joseph Assinyo, stofnandi akademíunnar, Guðmundur Óskar Pálsson fulltrúi KR og Abdullah Adam, framkvæmdarstjóri og eigandi akademíunnar.
Frá vinstri: Joseph Assinyo, stofnandi akademíunnar, Guðmundur Óskar Pálsson fulltrúi KR og Abdullah Adam, framkvæmdarstjóri og eigandi akademíunnar. KR

Tveir knattspyrnumenn eru væntanlegir til KR á næstu dögum úr Field Masters Academy, knattspyrnuakademíu í Accra í Gana. Koma þeirra er hluti af nýju samstarfi KR við akademíuna.

KR-ingar greindu frá samstarfinu á miðlum sínum í dag. Þar segir að markmiðið með því sé að styðja við menntun og knattspyrnuiðkun ungra leikmanna en um leið að skapa þeim tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í Evrópu og elta atvinnumannsdrauminn.

Field Masters Academy hefur getið af sér leikmenn sem síðar hafa leikið á Englandi, í Danmörku, á Spáni og í Portúgal, að því er segir í tilkynningu KR-inga.

Þjálfarar akademíunnar og KR munu eiga í virku samstarfi sem felst meðal annars í því að KR mun fá þjálfara í heimsókn.

„Við hjá KR hökkum mikið til samstarfsins við Field Masters Academy,“ segir Magnús Orri Schram, formaður knattspyrnudeildar KR.

„Við á Íslandi erum framarlega á mörgum sviðum knattspyrnunnar og með þessu samstarfi getum við miðlað reynslu okkar áfram. Um leið opnum við tækifæri fyrir leikmenn frá Gana til að koma til Íslands og taka þátt í æfingum og keppni. Á næstu dögum munu fyrstu tveir leikmennirnir koma til KR og það er mikilvægt að við tökum vel á móti þeim og styðjum þá í að taka fyrstu skrefin í nýju landi,“ segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×