Viðskipti innlent

Hætta flugi til Istanbúl eftir að flug­menn drógu undan­þágu til baka

Atli Ísleifsson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Icelandair hefur ákveðið að hætta flugi til Istanbúl í Tyrklandi frá og með 1. febrúar 2026.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að samkvæmt kjarasamningi Icelandair og Félags íslenskra atvinnuflugmanna hafi uppbygging flugleiðarinnar krafist undanþágu frá kjarasamningi, en stéttarfélagið hafi dregið undanþáguna til baka frá og með 1. febrúar 2026. 

Farþegar sem verða fyrir áhrifum geta valið um endurbókun með tengiflugi eða endurgreiðslu farmiða. Icelandair hefur flogið til borgarinnar fjórum sinnum í viku síðan í september 2025.

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að félagið hafi séð mikil tækifæri í því að byggja Istanbúl upp sem nýjan áfangastað í leiðakerfi Icelandair til að tengja Asíu og Mið-Austurlönd við Ísland og Norður-Ameríku. Asíumarkaður hafi verið að vaxa hvað hraðast þegar horft sé á eftirspurn eftir ferðum til Íslands. 

„Því miður mun afturköllun undanþágunnar leiða til kostnaðarhækkana og óvissu sem gera það að verkum að þessi flugleið og frekari fjárfesting í uppbyggingu hennar er að óbreyttu ekki lengur raunhæf fyrir félagið. Við munum hins vegar halda áfram að skoða framtíðartækifæri í Asíu og Mið-Austurlöndum að því gefnu að félagið hafi sveigjanleikann til að vaxa á þeim mörkuðum,“ er haft eftir Boga Nils. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×