Erlent

Tollahótanir Trump gætu hrundið af stað ugg­væn­legri at­burða­rás

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar og Emmanuel Macron forseti Frakklands eru á meðal þeirra sem gefa yfirlýsinguna út.
Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar og Emmanuel Macron forseti Frakklands eru á meðal þeirra sem gefa yfirlýsinguna út. AP

Löndin sem Trump hefur hótað háum tollum gangi þau ekki að óskum hans um að styðja innlimun hans á Grænlandi hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu. Þau segjast tilbúin til viðræðna en að þeim verði ekki hnikað hvað fullveldi þeirra varðar.

Trump tilkynnti í gær að hann hygðist beita þau ríki sem mest hafa sett sig í móti fyrirætlunum hans um innlimun Grænlands, þau sem gert hafa út herlið til landsins til þátttöku í heræfingunni Arctic Endurance, tíu prósenta allsherjartollum frá og með 1. febrúar. Þeir muni svo hækka og nema 25 prósentum verði Trump ekki látið eftir Grænland fyrir 1. júní.

Leiðtogar Evrópu hafa brugðist ókvæða við hótunum Trump sem þeir hafa lýst sem óskiljanlegum tilraunum til fjárkúgunar. Danir, Finnar, Frakkar, Þjóðverjar, Hollendingar, Norðmenn, Svíar og Bretar gáfu út yfirlýsingu í dag. Þau eru löndin sem Trump hótaði tollum í gærkvöld.

„Sem aðildarþjóðir að Atlantshafsbandalaginu erum við staðráðnar í því að styrkja varnir norðurslóða þjóðum beggja vegna Atlantshafsins í hag. Danska heræfingin Arctic Endurance sem bandamenn taka þátt í er svar við þessari þörf. Það steðjar ekki ógn að neinum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Við stöndum heilshugar með Konungsríkinu Danmörku og grænlensku þjóðinni. Á grundvelli þess ferlis sem í hönd fór í síðustu viku erum við tilbúin til að eiga samræður sem byggjast á virðingu fyrir fullveldi og friðhelgi þjóða sem við stöndum staðföst með. Hótanir um tollalagningu grafa undan samskiptum yfir Atlantshafið og gætu hrundið af stað uggvænlegri atburðarás. Við erum staðráðin í að verja fullveldi okkar,“ segir svo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×