Erlent

Skriðdrekar Ísraela halda inn í Gaza
Ísraelar sendu skriðdreka yfir landamærin inn á Gaza ströndina nú síðdegis. Loftárásir á stöðvar Palestínumanna héldu áfram í dag eftir árásir á raforkuver og brýr í nótt. Óttast er að blóðbað kunni að vera í uppsiglingu.
Mecom kaupir Orkla Media
Breska fjárfestingarfélagið Mecom Group hefur keypt útgáfufélagið Orkla Media, sem gefur út fjölda dagblaða og tímarita, m.a á Norðurlöndum og í Póllandi. Á meðal dagblaðanna er danska dagblaðið Berlingske Tidende, sem greinir frá kaupunum í dag.

Pútín hefnir fyrir morð rússneskra sendifulltrúa
Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, hefur skipað öryggislögreglu landsins að hafa upp á morðingjum fjögurra Rússa sem rænt var í Írak. Forsetinn hefur, að sögn rússnesku fréttastofunnar Interfax, skipað lögreglumönnunum að myrða þá. Rússunum, sem voru sendifulltrúar í Bagdad, var rænt fyrir mánuði síðan og í þessari viku birti hópur, tengdur al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum, myndbandsupptöku á vefnum sem sýnir morð þriggja þeirra. Rússar hafa staðfest að mennirnir fjórir hafi allir verið myrtir.

ESB hraðar viðræðum við Króatíu
Evrópusambandið ákvað í dag að hraða aðildarviðræðum við Króatíu en ekki Tyrkland. Ítarlegar viðræður um samkeppnismál fara nú fram við fulltrúa beggja ríkja en aðeins verður rætt um tollamál við Króata þar sem Evrópuráðið hefur ekki lokið við að bera tollalög Tyrkja saman við lög Sambandsins. Það sem torveldar málið einnig er að stjórnvöld í Ankara hafa ekki viljað leyfa siglingar eða flug frá Kýpur til Tyrklands.

Jackson flytur til Evrópu
Michael Jackson hefur ákveðið að yfirgefa Bahrain og flytja til Evrópu. Söngvarinn ætlar með þessu að koma ferli sínum aftur á skrið. Talskona söngvarans segir að vegna verkefna sem hann hefur tekið að sér sé þægilegra fyrir hann að búa í Evrópu. Jackson mun þó áfram dvelja mikið í Bahrain.

Eddie látinn
Hundurinn Moose sem lék Eddie í gamanþáttunum um Frasier er látinn. Moose kom fram í fyrsta þætti Frasier og alla tíð síðan, alls kom hann fram í 192 þáttum. Persóna Eddies í þáttunum var gríðarlega vinsæl og á tímabili fékk Moose fleiri aðdáendabréf en samleikarar hans. Mathilde Halberg, þjálfari Moose, segir hann hafa haft gríðarlega persónutöfra og að hans verði sárt saknað. John Mahoney sem leikur Marty Crane, föður Frasiers og eiganda Eddie, lýsti hundinum eitt sinn sem sönnum fagmanni. Harðduglegum leikara sem eyddi miklum tíma í að læra brögðin sín. Moose dó úr elli, rúmlega sextán ára.

Ísraelsher réðist inn á Gaza
Ísraelsher réðist inn í suðurhluta Gaza-svæðisins í gærkvöldi til að reyna að frelsa ísraelskan hermann sem hefur verið í gíslingu herskárra Palestínumanna frá því á sunnudag. Abbas, forseti Palestínu, segir innrásina stríðsglæp.
Paroubek víkur úr forsætisráðherraembættinu
Jiri Paroubek, forsætisráðherra Tékklands og leiðtogi vinstrimanna þar í landi, tilkynnti í dag að hann hefði ákveðið að víkja úr embætti í næstu viku. Þar með getur Vaclav Klaus, forseti, útnefnt Mirek Topolanke, leiðtoga hægrimanna, í embætti forsætisráðherra. Flokkur Topolanke vann sigur í þingkosningum í byrjun mánaðarins. Bandalag þriggja hægri flokka hefur þó ekki hreinan meirihluta heldur hundrað þingsæti af tvö hundruð og þarf því að treysta á stuðnings minnst eins þingmanns úr öðrum flokki.

Tamíl-tígrar réðust á tvö skip
Skæruliðar Tamíl-tígra réðust í morgun á tvö skip stjórnarhersins á Sri Lanka. Kveikt var í öðru þeirra. Um sjö hundruð manns hafa fallið í átökum í landinu frá áramótum en vopnahléssamkomulag er enn í gildi. Óttast er að átök síðustu vikna eigi eftir að valda borgarastyrjöld enn á ný.

Lík beggja stúlknanna fundin
Belgíska lögreglan hefur staðfest að lík beggja stúlknanna sem rænt var fyrr í mánuðinum hafi fundist. Stúlkurnar voru stjúpsystur, 7 og 10 ára, en þær hurfu frá borginni Liege 10. júní síðastliðinn. Karlmaður, sem grunaður er um að hafa átt þátt í hvarfi stúlknanna, gaf sig fram við lögreglu fyrir hálfum mánuði. Sá hefur tvívegis verið dæmdur fyrir að misnota börn. Lögregla fann stúlkurnar án upplýsinga frá manninum en hann heldur fram sakleysi sínu.

HM eykur væntingar Þjóðverja
Svo virðist sem heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu (HM), sem nú fer fram í Þýskalandi, hafi aukið væntingar þýskra neytenda umtalsvert. Þetta eru niðurstöður alþjóðlega markaðsrannsóknafyrirtækisins Gfk. Væntingavísitalan, sem gildir fyrir júlí, hækkaði um 7,8 punkta og hefur hækkun milli mánaða ekki verið meiri í fimm ár.
Þrír handteknir í tengslum við slys í sýningarhöll í Póllandi
Þrír menn hafa verið handteknir vegna mannskæðs slyss í sýningarhöll í Póllandi í janúar. Sextíu og fimm létust og hundrað og fjörutíu slösuðust þegar þak hallarinnar, sem er í bænum Katowice, hrundi undan snjóþunga. Fimm hundruð manns voru í höllinni þegar slysið varð.

Arcelor styður tilboð Mittal Steel
Stjórnvöld í Lúxemborg, sem eiga 5,6 prósent í evrópska stálrisanum Arcelor, og eignarhaldsfélagið Carla Tassara International, sem á 7,8 prósenta hlut í stálfyrirtækinu, eru fylgjandi endurskoðuðu yfirtökutilboði Mittal Steel í fyrirtækið. Mittal Steel gerði yfirtökutilboð í Arcelor í janúarlok á þessu ári en andstaða hluthafa í Arcelor varð til þess að gengið var til samninga við rússneska stálrisann Severstal um sameiningu.

Brotthvarf japanskra hermanna frá Írak
Brotthvarf japanskra hermanna frá Írak heldur áfram. Það hófst á sunnudaginn þegar hluti japanska heraflans fór frá Suður-Írak yfir til Kúvæt. Í morgun mátti sjá nokkra vöruflutningabíla flytja búnað yfir landamærin. Sex hundruð japanskir hermenn hafa einungis sinnt hjálparstarfi í borginni Samawah í Suður-Írak síðan 2004. Þeir sinntu vegagerð, byggingu húsa og tóku þátt í að styrkja heilbrigðisþjónustu og hreinsa vatn í borginni. Óttast var um öryggi hermannanna þó friður væri á svæðinu. Enginn japanskur hermaður hefur fallið í Írak.

Óeirðir í Austur-Tímor í nótt
Óeirðir í Dili, höfuðborg Austur-Tímor, í nótt benda til þess að hættuástand þar í landi sé ekki liðið hjá þó Mari Alkatiri, forsætisráðherra, hafi sagt af sér fyrr í vikunni. Hópar ungmenna létu grjóthnullungum rigna yfir búðir þar sem flóttamenn halda til og lögðu eld að fjölmörgum húsum víðsvegar um borgina. Ástralskir friðargæsluliðar hröktu um hundrað óeirðaseggi frá flóttamannabúðunum. Ekki er vitað hvort nokkur særðist.

Ísraelsher ræðst inn á Gaza-svæðið
Ísraelsher hefur tekið sér stöðu við Rafah á suður hluta Gaza-svæðisins. Herinn réðst inn á Gaza seint í gærkvöldi með það fyrir augum að frelsa ungan, ísraelskan hermann sem hefur verið í haldi herskárra Palestínumanna síðan á sunnudaginn.

Stefndi í hörð átök
Palestínumenn bjuggu sig undir innrás Ísraelsmanna á Gaza-svæðið í gærkvöldi og var vegum við landamærin lokað með jarðhleðslum og gaddavír.

Meint fangaflug CIA rannsakað áfram
Evrópuráðsþingið samþykkti í gær að halda skyldi áfram rannsókn á ásökunum um að stjórnvöld í Evrópuríkjum hafi liðsinnt bandarísku leyniþjónustunni við að brjóta mannréttindi á föngum, grunuðum um að tengjast hryðjuverkum.

Hörð gagnrýni á Tony Blair
Charles Clarke, fyrrverandi innanríkisráðherra Tony Blair, gagnrýndi fyrrverandi samherja sinn harkalega í gær og sagði hann hafa misst sjónar á þeim stefnumálum og markmiðum sem Verkamannaflokkurinn hefði áður staðið fyrir. Gagnrýnin kemur í kjölfar slæmrar útreiðar Verkamannaflokksins í skoðanakönnun í vikunni.

Viðurkenna ekki Ísraelsríki
Abdel Rahman Zeidan, ráðherra í palestínsku heimastjórninni, leiðrétti fréttaflutning af samkomulagi milli Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar í gærkvöldi. BBC hefur eftir honum að í samkomulaginu milli Hamas og Fatah væri ekki minnst einu orði á viðurkenningu á Ísraelsríki. Þetta hefur enginn samþykkt. Þetta var aldrei á borðinu.

Mestur tími fer í að ræða spillingarmál
Mikill órói er nú í Kúveit vegna væntanlegra þingkosninga í landinu. Kosningarnar fara fram þann 29. júní og eru sögulegar að því leyti að nú er konum í fyrsta skipti leyft að kjósa og bjóða sig fram til þings.

Alls ekki stödd á flæðiskeri
Skrifstofa Karls Bretaprins hefur skýrt frá því að tekjur prinsins á síðasta ári hafi numið rúmlega fjórtán milljónum punda, eða jafnvirði um það bil 1.900 milljóna íslenskra króna.

Í kapphlaup um gjafmildi
Rausnarleg gjöf bandaríska auðkýfingsins Warren Buffetts gæti orðið fleiri auðkýfingum fyrirmynd til þess að gefa stóran hluta auðæfa sinna til líknarmála af ýmsu tagi.

Bjarndýrið fellt í Bæjaralandi
Brúnó, björninn ítalskættaði sem hefur reikað um skóga Bæjaralands undanfarinn mánuð, var skotinn í gær og drapst í kjölfarið, tveggja ára að aldri. Dýraverndunarsinnar eru reiðir vegna málsins og hefur umhverfisráðherra Bæjaralands, sem fyrirskipaði drápið, fengið morðhótanir í kjölfarið. Áður höfðu yfirvöld ákveðið að drepa Brúnó ekki, en skiptu um skoðun.

Evrópuráðið gagnrýnir leynifangelsin
Evrópuráðið gagnrýndi harðlega í ályktun sinni í dag þau lönd sem rekið hafa leynifangelsi eða heimilað fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar CIA um lofthelgi sína.

Hamas viðurkenni Ísraelsríki óbeint
Hamas-samtökin, sem eru í forystu í heimastjórn Palestínumanna, hafa óbeint viðurkennt tilvist Ísraelsríkis. Forystusveit samtakanna hefur samþykkt lausn á deilum Ísraela sem felur í sér stofnun Palestínuríkis við hlið Ísraels.
Fékk stálrör í gegnum sig miðjan og lifið það af
Kínverskur byggingaverkamaður lifði það af að fá fjögurra metra langt stálrör í gegnum sig miðjan við framkvæmdir á dögunum. Erfiðlega gekk að koma honum í sjúkrabíl og í hendur lækna.

Bush gagnrýnir New York Times
Bush Bandaríkjaforseti ganrýndi í gær dagblaðið New York Times harðlega fyrir að birta í síðustu viku frétt um að bandaríska leyniþjónsutan hefði fengið aðgang að alþjóðlegum gagnabanka um bankaviðskipti.

Þrjú tonn af kókaíni gerð upptæk í Kólumbíu
Lögreglan í Kólumbíu sýndi fjölmiðlum í gær tæplega þrjú tonn af kókaíni sem hún gerði upptæk á dögunum. Talið er að flytja hafi átt allan farminn til Evrópu. Kókaínið fannst grafið í jörðu nærri bænum Necocli í norðurhluta Kólumbíu en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins enn sem komið er.