Erlent

Vopnahlésviðræður út í sandinn

Vopnahlésviðræður við múslimaklerkinn Muqtada al-Sadr eru runnar út í sandinn. Hann hvetur landa sína til harðari baráttu gegn hinu „ameríska nýlenduveldi“.  Muqtada krafðist þess að Bandaríkjamenn flyttu allt sitt herlið frá Najaf og að hann og menn hans fengju sakaruppgjöf og fengju að fara frjálsir ferða sinna. Þessu var hafnað enda hefur Muqtada áður svikið samskonar vopnahlésskilmála. Engan bilbug var þó að finna á klerkinum þegar hann þrumaði yfir fylgismönnum sínum í Najaf í dag. „Við hvetjum alla æðstuklerkana, stjórnmálaflokkana og þjóðina alla til að margefla baráttuna gegn nýlendustefnu Bandaríkjamanna og gyðinga. Við krefjumst þess að hernámsliðið geri tímaáætlun um brotthvarf sitt sem er annað og meira en blek á blaði,“ sagði Muqtada í dag. Þrátt fyrir þetta hefur verið venju fremur rólegt í Najaf í gær og í dag. Hart var hins vegar barist í tveim öðrum borgum þar sem fylgismenn Muqtadas voru stráfelldir. Bandaríkjamenn segja að að minnsta kosti níutíu þeirra hafi verið lagðir að velli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×