Erlent

Moskan á valdi skæruliðanna

Barist er í nánd við Imam Ali moskuna í Najaf í Írak sem er enn á valdi Mehdi-skæruliðasveita Muqtada al-Sadrs. Nokkur óvissa hefur ríkt um hvernig ástandið í Najaf væri í raun og veru og á hvers valdi Imam Ali moskan væri. Nú virðist hins vegar ljóst að Mehdi-sveitir al-Sadrs halda þar ennþá til, þó að óvíst sé hvar al-Sadr er sjálfur niður kominn. Harðir bardagar geisuðu í Najaf í nótt og gerði Bandaríkjaher ítrekaðar loftárásir á svæðið í kringum moskuna. Skriðdrekar eru sagðir í um átta hundruð metra fjarlægð frá henni og hafa fregnir borist af því, að skotið hafi verið á moskuna. Fram til þessa hefur verið lögð áhersla á að valda ekki skemmdum á moskunni af ótta við að það kynni að valda úlfúð meðal sjíta, en moskan er einhver sú helgasta í þeirra sið. Talsmenn al-Sadrs segja helsta trúarleiðtoga sjíta í Írak, al-Sistani, eiga að taka við umsjón moskunnar og tryggja öryggi þeirra sem halda þar til. En það er víðar en í Najaf þar sem barist er. Raunar er barist víðast hvar í landinu og tölur um mannfall undanfarinn sólarhring sýna það glögglega. Í Bagdad féllu ellefu og fimmtíu og átta eru sárir. Í Najaf er í það minnsta einn sagður hafa fallið. Í Hilla féllu tveir og sextán særðust og í Meisan eru sex særðir eftir átök. Á myndinni bera skæruliðar, hliðhollir Muqtada al-Sadr, lík eins félaga síns sem féll í bardögum við Bandaríkjamenn við Imam Ali moskuna í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×