Erlent

21 fallinn í morgun

Fjölmargar bílasprengjur sprungu í Bagdad í Írak í morgun og tuttugu og einn maður hið minnsta liggur í valnum. Öfgamenn beina spjótum sínum í auknum mæli að nýþjálfuðum írökskum öryggissveitum. Ein sprengnanna í morgun sprakk skammt frá græna svæðinu sem umlykur höfuðstöðvar bráðabirgðaríkisstjórnar Íraks og aðalstöðvar hersetuliðsins þar. Bíl var ekið upp að einum af hliðunum inn á græna svæðið og hann sprengdur í loft upp inni í þvögu af fólki á leið til vinnu sinnar. Fréttaskýrendur segja að þessi árás sé dæmigerð fyrir öfgahópana sem reyna hvað þeir geta að hræða Íraka frá því að taka að sér störf fyrir bráðabirgðaríkisstjórnina. Írakskir lögreglumenn og hermenn eru sérstök skotmörk. Öfgahóparnir hafa haft þó nokkuð erindi sem erfiði því æ erfiðlegar gengur að fá Íraka til þessarra starfa. Á sama tíma fer að verða æ meira aðkallandi að löggæslan sé öflug og í höndum heimamanna því fyrirhugaðar kosningar í janúar nálgast óðum. Óttast er að allt gæti farið í bál og brand í kosningunum ef öryggisgæsla er ekki nægjanleg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×