Erlent

Bardagar breiðast út

Bandarískar herþotur vörpuðu sprengjum á vígamenn í Baquba og Falluja í gær þar sem harðir bardagar geisuðu milli vígamanna annars vegar og bandarískra og íraskra hermanna hins vegar. Tugir manna féllu í bardögum sem hafa breiðst út um Írak í kjölfar árásarinnar á vígamenn í Falluja. Sjö hermenn og 30 vígamenn féllu í bardögum í Mosul. Vígamenn drógu særðan lögreglumann úr rúmi hans í sjúkrahúsi í borginni, myrtu hann og hengdu lík hans upp öðrum til viðvörunar. Níu hið minnsta létust í bardögum í Baquba, flestir þeirra óbreyttir borgarar en einnig einn lögreglumaður og einn vígamaður. Bardagar hafa breiðst út undanfarna daga, einkum í borgunum Baiji, Mosul, Ramadi og Samarra þar sem súnnímúslimar eru í meirihluta en einnig í Baquba þar sem álíka margir súnnímúslimar og sjíamúslimar búa. Bandarísk og írösk yfirvöld segja bardaga í Falluja á lokastigi, aðeins eigi eftir að uppræta síðustu leifar vígamanna. Birgðalest Rauða hálfmánans, hlaðinni hjálpargögnum, var snúið frá Falluja þar sem ástandið í borginni þótti of hættulegt til að leggja líf hjálparstarfsmanna í hættu. "Ég get ekki fórnað lífi sjálfboðaliðanna. Það er mjög hættulegt að fara inn í Falluja núna og okkur þótti betra að fara ekki inn í borgina," sagði Ismail al-Haqi, yfirmaður íraska Rauða hálfmánans. Rauða hálfmánanum hefur ekki tekist að koma hjálpargögnum til íbúa Falluja þá rúmu viku sem bardagar í borginni hafa staðið yfir. Bandarískar og íraskar hersveitir hafa snúið birgðalestum við þegar þær hafa reynt að komast inn í borgina og segja hermenn sína hjálpa íbúunum. Nóg er af hjálpargögnum í sjúkrahúsi borgarinnar, einkum vegna þess að sjúklingar og sært fólk hefur ekki komist þangað. Tugþúsundir hafa flúið Falluja og hafast við í bráðabirgðabúðum við erfiðar aðstæður fyrir utan borgina. Óvissa ríkir um afdrif þeirra sem eftir urðu í borginni, margir eru sárir eftir átök undanfarinna daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×