Erlent

Svartsýni um framtíð Írak

Ástandið í Írak fer versnandi og óvíst hvort það batnar nokkuð í náinni framtíð. Þetta er mat fyrrum stöðvarstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA í skeyti sem hann sendi yfirmönnum sínum seint í síðasta mánuði, skömmu áður en hann lét af embætti. Þessu greindi dagblaðið The New York Times frá í gær. Blaðið hefur eftir ónafngreindum embættismönnum að skýrsla stöðvarstjórans fyrrverandi gefi til kynna að árangurinn í Írak sé misjafn. Annars vegar hafi Írakar náð mikilvægum árangri, einkum í uppbyggingu stjórnmálalífs og stjórnmálaafla. Hins vegar sé líklegt að öryggi fari áfram minnkandi, ofbeldi aukist og meira verði um átök ólíkra trúflokka. Helstu leiðirnar til að koma í veg fyrir hið síðarnefnda er að írösk stjórnvöld sýni fram á mátt sinn og að staða efnahagsmála batni. Stöðvarstjórinn fyrrverandi sendi skýrslu sína eftir bardagana í Falluja en markmið þeirra var að draga úr mætti vígamanna og auka öryggi í Írak. Skýrsla stöðvarstjórans er sögð að miklu leyti samhljóma samantekt háttsetts embættismanns í leyniþjónustunni sem var í Írak fyrir skömmu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×