Erlent

Kosningastarfsmenn drepnir í Írak

Öflug bílsprenging sprakk fyrir stundu í borginni Kerbala í Írak. Í það minnsta tíu fórust. Þetta er önnur bílsprengjuárásin í borginni á fimm dögum og hafa írakskir stjórnmálamenn fordæmt árásirnar sem tilraunir til að valda spennu á milli sjíta og súnníta í Írak. Báðar sprengjurnar sprungu skammt frá Imam Hussein hofinu sem er einn helgasti staður sjíta. Lögregluskóli er einnig í nánd. Árásirnar virðast þó fyrst og fremst miða að því að valda uppnámi í aðdraganda kosninganna í janúar og að reyna að koma í veg fyrir þær. Uppreisnarmenn stöðvuðu bíl þriggja starfsmanna kjörstjórnar í morgun, drógu mennina út úr bílnum og skutu þá til bana. Lík þeirra fundust skammt frá Haifa-götu, einni meginumferðaræð Bagdadborgar og um leið vinsælu skotmarki uppreisnarmanna úr röðum súnníta. Skæruliðar komu upp vegatálmum á götunni, stóðu þar gráir fyrir járnum, vopnaðir AK-47 hríðskotarifflum, og stöðvuðu alla bíla sem áttu leið hjá. Bæði lögregla og bandarískar hersveitir áttu í erfiðleikum með að komast á staðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×