Erlent

Tíu ára fangelsi fyrir pyntingar

Bandaríski herlögreglumaðurinn Charles Graner var í gærkvöldi dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir pyntingar á írökskum föngum í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Um miðjan dag í gær var Graner fundinn sekur um misþyrmingarnar og er að auki talinn höfuðpaurinn í skipulögðum pyntingum í fangelsinu sem fólust í barsmíðum, fangarnir voru látnir leggjast naktir hver ofan á annan, þeir voru neyddir til að fróa sér, borða svínakjöt og drekka áfengi sem stangast á við trú þeirra. Varnir Graners fólust í því að hann hafi einungis verið að fylgja skipunum; hans hlutverk og annarra hafi verið að gera fangana auðsveipari fyrir yfirheyrslur. Dómstóllinn tók ekkert tillit til þessara varna og var hann dæmdur sekur. Nokkrum klukkustundum síðar var refsingin svo ákveðin, tíu ára fangelsi, og er Graner vikið úr hernum með skömm. Myndir sem hermenn tóku af niðurlægingu og pyntingum fanganna birtust í fjölmiðlum um allan heim síðastliðið vor og höfðu mikil áhrif á álit írakskra borgara, sem borgara annarra landa, á veru Bandaríkjahers í Írak og skoðanir á réttmæti innrásarinnar. Því hefur verið haldið fram að pyntingarnar í Abu Ghraib hafi verið einsdæmi en annað er að koma á daginn. Pyntingar og misþyrmingar eru einnig stundaðar í fangelsi Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu, samkvæmt skýrslu Alþjóða Rauða krossins, og skýrslur hafa borist um illa meðferð á föngum í Afganistan. Því er haldið fram að heimsbyggðin hafi aðeins séð toppinn á ísjakanum hvað þetta varðar. Sex herlögreglumenn til viðbótar hafa verið ákærðir fyrir pyntingar í Abu Ghraib.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×