Erlent

Bretar fyrir rétti vegna pyntinga

Írakar, sem sátu í varðhaldi breskra hermanna, meðal annars fyrir að hafa stolið mat handa fjölskyldum sínum, voru barðir og niðurlægðir á ýmsan máta. Ljósmyndir sem þykja sanna þetta hafa verið lagðar fram í réttarhöldum sem nú standa yfir í Bretlandi yfir þremur breskum hermönnum. Tuttugu og tvær ljósmyndir sem sýna illa meðferð breskra hermanna á írökskum föngum hafa nú verið gerðar opinberar. Ljósmyndirnar voru teknar í breskum fangabúðum nálægt borginni Basra árið 2003 en þar voru í haldi óbreyttir Írakar sem voru handteknir, sakaðir um þjófnað, meðal annars fyrir að hafa stolið mjólkurdufti og matvælum fyrir fjölskyldur sínar. Myndirnar minna óþyrmilega á þær misþyrmingar sem írakskir fangar í Abu Ghraib fangelsinu máttu þola af hálfu bandarískra hermanna. Þrír breskir hermenn hafa verið ákærðir vegna þessa máls og hefur einn þeirra játað hluta sakargiftanna, þ.e. að hafa í einu tilviki barið fanga. Bresk stjórnvöld óttast að þetta mál verði til þess að uppreisnarhópar í Írak hefni sín með því að gera árásir á breskar hersveitir í landinu. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagðist á þinginu í dag vona að Írakar skilji að sú staðreynd að gripið sé til þessara aðgerða bendi til þess að stjórnvöld í Bretlandi láti svona framferði ekki viðgangast. Dagurinn í dag var óvenju mannskæður í Írak því alls liggja að minnsta kosti tuttugu og sex manns í valnum eftir fimm árásir í Bagdad.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×