Erlent

Leynilegar viðræður í Írak

Embættismenn bandarísku leyniþjónstunnar eiga í leynilegum viðræðum við uppreisnarmenn úr röðum súnníta um það hvernig binda megi endi á vargöldina í Írak. Frá þessu greindi tímaritið Time í gær. Tímaritið hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan Pentagon að nýlega hafi átt sér stað fundur milli tveggja bandarískra hershöfðingja og samningamanns sem meðal annars starfaði fyrir Saddam Hussein. Á fundinum á samningamaðurinn að hafa lýst yfir vilja súnníta til samstarfs við Bandaríkjamenn. Þá fullyrti hann einnig að bandalag sjíta, sem vann sigur í nýafstöðnum kosningum í Írak, væri stjórnað af Írönum. Talsmenn stjórnvalda í Washington hafa ekki tjáð sig um það hvort fundurinn hafi í raun og veru átt sér stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×