Erlent

Írak: Hvað kemur það okkur við?

Af hverju kemur Íslendingum við hvað gerist í Írak? Og af hverju er Írak alltaf í fréttum? Á sínum tíma ákváðu íslensk stjórnvöld að vera á lista sem hét á þeim tíma „Listi hinna staðföstu þjóða“. Deilt er um eðli þátttöku Íslendinga í stríðinu og eðli hennar og þó að engin niðurstaða hafi fengist er ljóst að tengslin við stríðsreksturinn og atburði í Írak undanfarin ár eru önnur en annars hefði verið. Að auki eru átökin í heimshluta sem skiptir gríðarmiklu máli. Fyrir botni Miðjarðarhafs var ekki einungis mikil spenna fyrir heldur eitthvart stærsta og hættulegasta vopnabúr jarðar. Ljóst er að ekki þarf mikið til að kveikja í púðurtunnunni í miðju vopnabúrinu og að afleiðingar þess yrðu alvarlegar og víðtækar. Ólgan vegna stríðsins og átökin sjálf hafa raunar haft umtalsverð áhrif á daglegt líf fólks um allan heim, meðal annars hér á landi. Þess vegna snertir stríðið í Írak buddur forstjóra stórfyrirtækja, bænda og húsmæðra. Við bensíntankinn verðum við vör við allar breytingar sem verða á olíumarkaði og undanfarin tvö ár má ekki síst rekja þær til stríðsins í Írak og viðkvæms ástands í nágrannaríkjunum. Ekki síst af þessum sökum skiptir máli hvað gerist í Írak og fyrir botni Miðjarðarhafs. Og þess vegna verður landið áfram í fréttum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×