Erlent

Al-Qaida ætlar að ná völdum

Að minnsta kosti 70 létust og um 160 særðust í sjálfsmorðssprengingu í Írak í gær. Árásum hefur fjölgað mjög í landinu að undanförnu og hafa hryðjuverkasamtökin Al-Qaida sagt að þeim linni ekki fyrr en samtökin ná völdum í landinu. Árásarmaðurinn sprengdi sig í loft upp við bensínstöð nærri mosku sjíta múslima í borginni Mussayib, 60 kílómetra suður af Bagdad, höfuðborg Íraks. Þetta er ein mannskæðasta árás sem gerð hefur verið í landinu frá því Bandaríkjamenn réðust inn fyrir þremur árum. Hryðjuverkasamtökin Al-Qaida hafa lýst því yfir að árásum muni fjölga enn frekar á næstunni, markmiðið sé að komast til valda og Bandaríkjamönnum frá. Árásum uppreisnarmanna hefur fjölgað mjög að undanförnu. Í dag hafa yfir tuttugu manns látist í fjórum sjálfsmorðssprengingum í Bagdad, þar á meðal sex lögreglumenn. Flestar árásirnar voru gerðar nálægt lögreglustöðvum í borginni en Al-Qaida hefur lýst því yfir að allir þeir sem hjálpi Bandaríkjamönnum á einhvern hátt séu skotmörk samtakanna. Hingað til hafa moskur að mestu verið látnar í friði en breyting virðist hafa orðið þar á og lítur út fyrir að enginn staður sé lengur heilagur eða óhultur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×