Erlent

Háttsettir írakskir lögreglumenn grunaðir um aðild að hryðjuverkum

Mynd/AP

Breskir og írakskir hermenn handtóku í dag fjórtán háttsetta lögreglumenn í borginni Basra. Þeir eru taldir eiga þátt í mikilli fjölgun hryðjuverka í borginni undanfarnar vikur.

Bretar hafa sínar eigin aðferðir þegar þeir telja sig þurfa að taka menn úr umferð. Í stað þess að senda skriðdreka og fjölmennar hersveitir, senda þeir litla hópa þrautþjálfaðra hermanna, sem eru búnir að drepa eða handjárna andstæðingana áður en þeir vita hvaðan á þá stendur veðrið. Þannig gekk það til eldsnemma í morgun. Þeir voru búnir að ryðjast inn í hús hinna grunuðu og farnir á brott með þá, áður en nágrannarnir áttuðu sig á því hvað gerst hafði. Enginn maður féll og enginn særðist.

Undanfarnar vikur hefur hryðjuverkaárásum í Basra, og í nágrenni borgarinnar, fjölgað mikið. Bæði vegasprengjum, skotárásum og mannránum. Þessum árásum hefur verið beint gegn íröksku lögreglunni en þó einkum óbreyttum borgurum. Yfirmaður bresku sveitanna í Basra segir að hinir handteknu séu ótíndir hryðjuverkamenn.

Hershöfðinginn sagði að í einu húsinu hefðu þeir fundið mikið vopnabúr, sem eigandinn hefði ekki getað gefið neina skýringu á. Meðal annars sýndist þeim að þar hafi verið efni til sprengjugerðar, en það sé enn í rannsókn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×