Innlent

Rafrænar sjúkraskrár geta skipt sköpum

Landspítali.
Landspítali. MYND/Pjetur
Bætt læknismeðferð vegna rafrænna sjúkraskráa getur bjargað mannslífum sagði Sigurður Guðmundsson landlæknir á ráðstefnu um rafrænar sjúkraskrár í dag.

Fjöldi fólks úr heilbrigðiskerfinu var viðstaddur ráðstefnuna á Grand Hótel þar sem fjallað var um þá möguleika sem felast í að safna upplýsingum um sjúklinga í rafræna sjúkraskrá. Meðal framsögu manna var María Heimisdóttir frá Landspítalanum sem sagði hægt að bæta mjög þjónustuna við sjúklinga. "Ég held að hagurinn sé fyrst og fremst sjúklinganna, bætt öryggi og bætt gæði þjónustunnar," segir hún. "Við höfum fullt af erlendum könnunum sem sýna að villur eða ýmis konar óhöpp í heilbrigðiskerfinu eru of algeng. Við höfum líka rannsóknir sem sýna að stóran hluta þessara villa má fyrirbyggja með einhvers konar rafrænni sjúkraskrá eða nýtingu klínískrar upplýsingatækni."

Sigurður Guðmundsson landlæknir sagði að ef erlendar rannsóknir væru yfirfærðar á íslenskar aðstæður mætti gera ráð fyrir að á síðasta ári hefðu orðið mistök við meðferð í þrjú þúsund tilfellum á síðasta ári á Landspítalanum einum.

"Af þessum 3.000 hlutu 600 örkuml einhvers konar, tímabundin eða langvinn. 180 sjúklingar dóu, ekki vegna sjúkdómsins heldur vegna meðferðarinnar, og í þessum rannsóknum er gegnumgangandi að koma megi í veg fyrir 50 prósent af þessum uppákomum sem á síðasta ári hefði komið í veg fyrir 90 dauðsföll á Landspítalanum ef við hefðum gert betur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×