Innlent

Rýmt fyrir enn hættulegri manni

Geðsjúkum afbrotamanni, sem dæmdur var á Sogn í kjölfar líkamsárásar og líflátshótana, var sleppt fyrir viku án dómsúrskurðar vegna þess að það þurfti að taka í vistun hættulegri einstakling.

Kona sem maðurinn hefur ofsótt á grundvelli ranghugmynda árum saman fékk ekki að vita af lausn mannsins fyrr en hann sendi henni ástarbréf og blóm daginn eftir að honum var sleppt.

Konan telur að það hafi átt að láta hana vita og undrast einnig hvernig hægt hafi verið að sleppa honum án þess að dómsúrskurður lægi fyrir. Hún bendir á að dómari hafi hafnað því að dæma manninn í nálgunarbann á þeirri forsendu að það væri óþarft þar sem hann væri á Sogni.

Magnús Skúlason, yfirlæknir á réttargeðdeildinni á Sogni staðfestir að manninnum hafi verið sleppt vegna þess að það hafi þurft bráðavistun fyrir mjög sjúkan afbrotamann sem dæmdur var til vistunar. Hann tekur fram að í ár hafi átta manns að jafnaði verið á Sogni sem þó hafi einungis sjö vistunarrými. Segir Magnús að þessi maður muni fá formlega lausn fyrir dómara innan nokkurra vikna. Framað því sé hann í leyfi en undir stöðugu efirliti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×