Erlent

Bush og Blair ræða um Írak í dag

Hernaðurinn í Írak verður aðalumræðuefnið á fundi þeirra George Bush og Tony Blair í Washington í dag. Skýrsla ráðgjafarnefndar Bandaríkjaforseta segir ástandið þar afar slæmt en enn þá sé tími til úrbóta.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, kom til Washington í gærkvöld en fundur þeirra George Bush fer fram í dag. Fastlega er reiknað með að Íraksmálin verði þar efst á baugi og þær tillögur sem sérstök nefnd á vegum Bandaríkjaþings kynnti forsetanum í gær.

Þrennt ber þar hæst: í fyrsta lagi endurskilgreining á verkefnum Bandaríkjahers í Írak svo kalla megi hluta hans heim á næstu misserum, í öðru lagi aukinn þrýsingingur á írösku stjórnina um að herða sig í að sætta ólíka þjóðfélagshópa og í þriðja lagi samstillt átak ríkisstjórna á svæðinu, sérstaklega Sýrlendinga og Írana, til að binda enda á vargöldina í Írak. Bush hefur hingað til lítið viljað hafa saman við þessi ríki að sælda en búist er við að Blair muni reyna að fá hann til að skipta um skoðun.

Upplýsingamálaráðherra Sýrlands sagðist í samtali við Breska ríkisútvarpið í morgun fagna skýrslunni og að Sýrlendingar hefðu ávallt verið reiðubúnir til samstarfs.

Það kemur svo væntanlega í hlut nýs landvarnaráðherra, Robert Gates, að hrinda einhverjum af þessum tillögum ráðgjafarnefndarinnar í framkvæmd en Bandaríkjaþing staðfesti endanlega skipun hans í embætti í gær. Hann sat áður í nefndinni og hefur lagt áherslu á að hann sé opinn fyrir nýjum hugmyndum um stríðsreksturinn í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×