Erlent

Hersveitir hafa heimild til að handtaka og drepa Írana í Írak

George Bush ásamt David Petraeuc hershöfðingja sem verður nýr yfirmaður Bandaríkjahers í Írak.
George Bush ásamt David Petraeuc hershöfðingja sem verður nýr yfirmaður Bandaríkjahers í Írak. MYND/AP

George Bush Bandaríkjaforseti greindi frá því í dag að bandarískar hersveitir í Írak hefðu heimild til að handtaka og drepa íranska ríkisborgarar sem tækju þátt í árásum á hersveitir bandamanna. Þetta þyrfti að heimila til þess að verja hermenn fyrir árásum og koma í veg fyrir mannfall í hernum.

Bush greindi einnig frá því að ekki yrði farið yfir landamærin til Írans í þessum tilgangi en vangaveltur hafa verið um hvort Bandaríkjamenn myndu grípa til þess í kjölfar frétta af Írönum sem störfuðu með uppreisnarmönnum í Írak. Á blaðamannafundi í dag sagði Bush enn fremur að stjórnvöld tryðu því að hægt væri að leysa vandann með diplómatískum leiðum.

Eins og kunnugt er hyggjast bandarísk stjórnvöld fjölga hermönnum í Írak um rúmlega 20 þúsund til þess að reyna að bjarga ástandinu í landinu. Sú ákvörðun hefur mætt mikill mótstöðu á bandaríska þinginu. Á blaðamannafundinum í dag sagði Bush að þeir sem væru andvígir áætlunum ættu að leggja fram eigin áætlun til þess að binda enda á blóðbaðið í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×