Körfubolti

Fannar: Ummæli Hreggviðs kveiktu í okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreggviður Magnússon í baráttu í leiknum í kvöld.
Hreggviður Magnússon í baráttu í leiknum í kvöld. Mynd/Arnþór

Fannar Ólafsson sagði eftir leik ÍR og KR í kvöld að ummæli Hreggviðs Magnússonar í Fréttablaðinu á sunnudaginn hafi kveikt í sínum mönnum í KR.

KR vann ÍR í kvöld, 86-80, í framlengdum leik og tryggði sér þar með oddaleik. Leikurinn var í járnum þar til að Pálmi Sigurgeirsson skoraði þriggja stiga körfu þegar mínúta var til loka framlengingarinnar.

„Ég ætla að þakka Hreggviði fyrir að koma með skemmtilega yfirlýsingu í Fréttablaðinu á sunnudaginn. Hann sagði að þeir væru betri en við og það kveikti almennilega í okkur," sagði Fannar í viðtali við Þorstein Gunnarsson á Stöð 2 Sporti eftir leik, léttur í bragði.

„Það verður svo gaman að rassskella þá í KR-heimilinu á fimmtudaginn og endurtaka söguna frá því í fyrra."

ÍR-ingar leiddu leikinn lengst af í seinni hálfleik en Fannar segir það ekki skipta máli. „Við settum niður stóru körfuna í lokin og það er það sem sannir meistarar gera. ÍR-ingar eru vissulega með gott lið en við erum betri."

Sjálfur sagði Hreggviður að það væri sárt að tapa leiknum í blálokin. „Staðreyndin er hins vegar sú að þetta eru tvö mjög góð lið. KR er Íslandsmeistari og sýndu gríðarlegan karakter hér í lokin."

„En við ætlum að klára þetta í næsta leik, það er ekkert flóknara en það. Við vitum að við erum með betra lið enda höfum við haft yfirhöndina lengst af í þessum tveimur leikjum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×