Ýmsar hræðilegar staðreyndir hafa þegar komið í ljós við rannsókn á máli austurríska föðurins sem lokaði dóttur sína niðri í kjallara í 24 ár. Margt er enn óupplýst en hinn 73 ára gamli Josef Fritzl hefur þegar viðurkennt ódæðisverk sín í stórum dráttum.
Árið 1984 gabbaði hann Elísabetu dóttur sína niður í kjallarann á fjölbýlishúsinu þar sem fjölskyldan bjó. Elísabet var þá 18 ára gömul. Hann gaf henni svefnlyf og handjárnaði hana. Neyddi hana svo til að skrifa fjölskyldunni bréf þar sem hún sagðist hafa hlaupist á heiman og bað um að ekki yrði leitað að sér.

Nauðgaði hvenær sem hann vildi
Josef gaf út að hún hefði líklega gengið í sértrúarsöfnuð. Sannleikurinn var þó sýnu verri. Hann hafði innréttað gluggalaust fangelsi í kjallaranum og falið innganginn svo vel að í 24 ár grunaði engan neitt. Lögreglan telur að eiginkona Jósefs hafi ekkert um þetta vitað.
Hjá Elísabet tóku við tuttugu og fjögur skelfileg ár. Faðir hennar kom niður í kjallarann til hennar og nauðgaði henni hvenær sem hann fann hjá sér þörf. Í tuttugu og fjögur ár sá hún ekki dagsljós.
Börnin
Elísabet ól sjö börn í fangavistinni. Eitt þeirra dó og Josef viðurkenndi fyrir lögreglunni að hann hefði brennt líkið. Yngsta barnið sem lifir er nú fimm ára en það elsta er nítján ára. Þrjú barnanna geymdi Josef í dýflissu sinni með Elísabetu. Það voru hin nítján ára gamla Kerstin, Stefán sem er átján ára og Felix sem er fimm ára.
Þrjú önnur tók hann inn á heimili sitt og eiginkonu sinnar. Það voru Lisa sem er 15 ára, Monica sem er 14 ára og Alexander sem er tólf ára. Alexander átti sér tvíburabróður. Það var barnið sem dó. Josef lét Elísabetu skrifa bréf með börnunum þar sem hún sagðist ekki geta alið önn fyrir þeim.

Uppljóstrunin
Fyrr í þessum mánuði varð elsta telpan í prísundinni svo alvarlega veik að Jósef fór með hana á sjúkrahús. Læknar þar vildu fá frekari upplýsingar og lögreglan bað hina "týndu" móður, Elísabetu að gefa sig fram.
Josef sleppti þá Elísabetu, Stefáni og Felix upp úr kjallaranum. Og í dag játaði hann á sig brot sín.