Körfubolti

Aðeins tölfræði á milli Hamars og Iceland Express deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Björgvinsson þjálfari Hamars bregður á leik með Ragnari Nathanaelssyni.
Ágúst Björgvinsson þjálfari Hamars bregður á leik með Ragnari Nathanaelssyni. Mynd/Arnþór

Hamar getur í kvöld endanlega tryggt sér sigur í 1. deild karla og endurheimt um leið sæti sitt í Iceland Express deildinni. Efsta liðið í 1. deildinni fer beint upp en næstu fjögur lið fara síðan í úrslitkeppni um hitt lausa sætið.

Haukar eru eina liðið sem getur náð Hamar að stigum en forskot Hamars er fjögur stig þegar fjögur stig eru eftir í pottinum. Það verður samt að teljast langsóttur möguleiki fyrir Haukar að ná að komast upp fyrir Hamar.

Til að Haukar vinni 1. deild karla þarf liðið að vinna báða leiki sína á móti KFÍ (úti) og Val (heima) á sama tíma og Hamar tapar lokaleikjum sínum á móti Val (úti) og Þór Þorlákshöfn (heima).

Þetta myndi samt ekki duga Haukum því það þarf fleira að gerast. Þegar lið eru jöfn að stigum þá ræður árangur í innbyrðisviðureignum röð liðanna. Hamar vann Hauka með 4 stigum í Hveragerði (78-74) en Haukar unnu seinni leikinn á móti Hamar líka með 4 stigum (69-65).

Hamar og Haukar eru því jöfn innbyrðis og því mun heildarnettó liðanna ráða röðinni og þar standa Hamarsmenn miklu betur. Hamar er með 272 stig í plús en Haukar "aðeins" 109 stig. Haukar verða því að vinna upp 163 stiga forskot Hamars í þessum tveimur síðustu umferðum.

Ef þessum stigum er deilt niður á leikina fjóra þá þurfa Haukar að vinna þá báða með 41 stigs mun á sama tíma og Hamar tapar þeim báðum með 41 stigs mun. það er því aðeins tölfræði sem stendur á milli Hamars og Iceland Express deildarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×