Skoðun

Lýðræði er grundvallarréttur

Sem kunnugt er skrifar Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi þingmaður og ritstjóri, reglulega hugleiðingar í Fréttablaðið. Þar víkur hann oft að grundvallaratriðum. Honum er lítt að skapi sú „lýðræðistíska“ sem hann kallar svo, að færa vald fulltrúaþings beint í hendur þjóðarinnar.

Fulltrúalýðræði á m.ö.o. ekki að víkja fyrir beinu lýðræði. Með fyrirvara þó: „Þjóðaratkvæðagreiðslur samrýmast að sjálfsögðu fulltrúalýðræði ef mál eru lögð fyrir þjóðina þannig að hún ráði þeim til endanlegra og fullra lykta…“

Dæmi: Samningur um inngöngu í Evrópusambandið. Fram hefur komið að ÞP þykir öðru máli gegna um Icesave, þar hafi verið kosið um áfanga á vegferð.

Ef þetta er vandamálið væri hægt að kippa því í liðinn með því að greiða atkvæði um endanlega niðurstöðu eða svo oft sem þörf er á. Það er þó ekki sáluhjálparatriði í mínum huga nema að þjóðin krefðist þess. Það er mergurinn málsins, hver hin lýðræðislega krafa er. Fjórðungur kosningabærra manna krafðist þess að fá aðkomu að Icesave-ferlinu. Sú krafa náði réttilega fram að ganga. Í mínum huga á grundvallarreglan að vera sú, að meirihlutavilji ráði um almenna stefnumótun og breytir þar engu óskoraður réttur minnihluta til orða og æðis svo fremur það valdi ekki öðrum tjóni.

Af praktískum ástæðum höfum við síðan komið á fót fulltrúalýðræði. En rétt minn til að ráða mínu lífi hef ég framselt með fyrirvara í hendur fulltrúa minna á þingi. Ef ég vil kalla þann rétt beint til mín og taka ákvörðun milliliðalaust, þá á ég að geta gert það óháð því hvað þingið vill. Eina skilyrðið er að nógu margir séu sama sinnis. Eðli máls samkvæmt er líklegt að fulltrúaþingið verði alltaf ósátt við ákvörðun mína, einfaldlega vegna þess að ákvörðunarvaldið kalla ég til mín þegar mér finnst fulltrúalýðræðið bregðast. Þorsteinn Pálsson kallar þetta tískuhugsun. Mér finnst þetta snúast um sjálfan grundvöll lýðræðisins.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×