Körfubolti

Hlynur: Mörg sumur gerði ég ekkert til að verða betri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hlynur í leik gegn Norrköping Dolphins. Mynd/Valli
Hlynur í leik gegn Norrköping Dolphins. Mynd/Valli

Körfuknattleikskappinn Hlynur Bæringsson er byrjaður að blogga. Strákurinn sá er ekki bara góður körfuboltamaður heldur er hann ansi lipur með pennann ef marka má fyrstu færslurnar á síðunni.

Þær hafa þegar vakið mikla athygli og blogg Hlyns frá því í gær hefur vakið sérstaklega mikla athygli.

Pistill Hlyns heitir „Eftirsjá íþróttamanns" og er afar persónulegur. Þar veltir Hlynur því upp hversu langt hann hefði náð sem körfuboltamaður ef hann hefði lagt sig meira fram þegar hann var yngri.

„Ég hugsa oft "hvað ef" og fæ samviskubit við tilhugsunina," segir meðal annars í pistli Hlyns.

"Það voru mörg sumur sem ég gerði nánast ekkert til að verða betri, sumrinu 2002 eyddi ég að horfa á HM í fótbolta, drekkandi fleiri lítra af coke og kaffi en ég kæri mig um að muna eftir, fór þess á milli á böll í Hreðavatnsskála. Ég horfði nánast á hvern einasta leik, en í dag man ég ekki einu sinni hver vann mótið. Árin eftir að ég flutti í Stykkishólm eyddi ég endalausum tíma í að horfa á enska boltann, á sunnudagsmorgnum, mánudagskvöldum og nánast alla leiki sem ég gat. West Ham-Derby í beinni hljómar ekki spennandi en ég missti ekki af því. Ég hef ótal svipuð dæmi, en óþarfi er að telja þau upp, þið skiljið hvað ég á við," segir Hlynur einnig.

Hægt er að sjá bloggsíðu Hlyns hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×