Fótbolti

Messi: Argentínumenn elska mig nú eins og fólkið í Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AP
Lionel Messi er kominn á sama flug með argentínska landsliðinu og hann er á hjá Barcelona á Spáni. Messi skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Argentínu á Úrúgvæ í undankeppni HM aðfaranótt laugardagsins.

Messi skoraði "bara" 11 mörk í 41 leik með argentínska landsliðinu frá 2008 til 2011 á sama tíma og hann skoraði 211 mörk í 219 leikjum með Barcelona. Það kallaði á miklar vangaveltur í heimalandinu enda skildi enginn af hverju Messi var ekki sami leikmaður og þeir sáu spila með Barcelona í sjónvarpinu.

Lionel Messi hefur nú fundið taktinn með landsliðinu og er búinn að skora 12 mörk í síðustu 8 landsleikjum þar af 6 mörk í 8 leikjum í undankeppni HM 2014.

„Ég er alltaf ánægður þegar ég spila fyrir Argentínu. Núna þegar við erum farnir að vinna leikina þá er allt miklu auðveldara og skemmtilegra," sagði Lionel Messi við blaðamenn eftir sigurinn á Úrúgvæ.

„Ég er himinlifandi með að stuðningsmenn argentínska landsliðsins eru farnir að sýna mér ást. Það var þannig hjá River Plate, svo aftur í Cordoba og loks hér í Mendoza. Ég er mjög ánægður með Argentínumenn elska mig nú eins og fólkið í Barcelona," sagði Messi.

„Það var mikilvægt að vinna þennan leik og við vinnum aftur í Chile þá stígum við stórt skref í áttina að tryggja okkur inn á HM í Brasilíu. Chile verður samt erfiður mótherji því þeir eru með flott lið sem þarf á sigri að halda," sagði Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×