Yfirvöld í Ísrael samþykktu fyrr í dag tillögur Egypta að vopnahléi en vopnaður armur Hamas-samtakanna sagði tillögurnar fela í sér uppgjöf af þeirra hálfu.
Lokasvar barst aldrei frá samtökunum og því hófu Ísraelsmenn loftárásir á Gaza-svæðið að nýju.
Yfirvöld í Ísrael segja að á þeim sex klukkutímum sem vopnahléið stóð yfir af þeirra hálfu, hafi um fimmtíu eldflaugum verið varpað frá Gaza inn í Ísrael. Þess vegna hafi loftárásum verið haldið áfram.
Hamas-liðar segjast vilja einhverja eftirgjöf af hálfu Ísraelshers áður en þeir geti fallist á vopnahlé, svo sem að hömlum á landamærum við Egyptaland og Ísrael verði aflétt.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist hisvegar ekki geta „fordæmt nógu mikið" ákvörðun Hamas um að halda áfram að varpa eldflaugum eftir að stungið var upp á vopnahléi.
Vel á annað hundrað Palestínumanna hafa látið lífið í loftárásum Ísraels undanfarna viku, langflestir óbreyttir borgarar.
![Fréttamynd](/static/frontpage/images/kvoldfrettir.jpg)