Fjögur barnaþorp SOS eru í Ísrael og Palestínu, þar af eitt í Rafah á Gasasvæðinu. Mannskæðar loftárásir hafa staðið yfir á svæðinu frá því 8. júlí og hafa börn og starfsfólk í þorpinu verið undir miklu álagi vegna þeirra.
Í frétt á vef SOS-samtakanna segir að tuttugu og sex sprengjur hafi fallið í grennd við þorpið síðustu helgi. Byggingar nálægt þorpinu hafi eyðilagst í árásunum og sprengjubrot lent í garði barnaþorpsins.
Í fréttinni segir að Barnaþorpið sé talið einn öruggasti staðurinn á Gasa um þessar mundir. Börnin búi þó við mjög erfiðar aðstæður, sofi illa og illa gangi að fá áfallahjálp á staðinn. Nokkur barnanna voru í heimsókn hjá ættingjum sínum þegar átökin hófust og hefur ekki tekist að koma þeim öllum til baka. Að minnsta kosti eitt þessara barna var í skóla Sameinuðu þjóðanna þegar hann varð fyrir sprengingu en barnið slasaðist ekki.
Um tvö þúsund manns hafa látist síðan árásirnar á Gasa hófust, þar af langflestir óbreyttir borgarar. Samtökin SOS segjast ekki taka pólitíska afstöðu í deilunum en krefjast þess að deiluaðilar virði mannréttindi barna og tryggi öryggi þeirra í samræmi við alþjóðalög.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)