Körfubolti

Jón Arnór aftur með og Unicaja komst aftur á sigurbraut

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson reynir hér skot í leiknum í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson reynir hér skot í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Jón Arnór Stefánsson spilaði sinn fyrsta leik síðan í lok október í kvöld þegar lið hans Unicaja Malaga vann öruggan sigur á króatíska liðinu Cedevita Zagreb í Euroleague, Meistaradeild Evrópu í körfuboltanum.

Unicaja Malaga vann leikinn með níu stigum, 82-73, eftir að hafa verið einu stigi undir etir fyrsta leikhlutann, 22-23, og þremur stigum yfir í hálfleik, 44-41.

Jón Arnór var búin að missa af síðustu fimm leikjum með Unicaja Malaga vegna meiðsla á nára og liðið hafði aðeins náð að vinna tvo þeirra en báðir leikirnir án hans í Euroleague höfðu sem dæmi tapast.

Unicaja Malaga hefur nú unnið alla leiki sem Jón Arnór hefur spilað á tímabilinu. Jón Arnór náði þó ekki að skora á þeim tæpu fjórum mínútum sem hann fékk á vellinum í kvöld.

Jón Arnór klikkaði á eina skotinu sínu sem kom fyrir utan þriggja línuna og þá átti hann eina stoðsendingu á félaga sína.

Jasmin Repesa, þjálfari Cedevita Zagreb, þekkir vel til Jóns Arnórs en þeir unnu silfur saman á Ítalíu vorið 2008 þegar Jón lék með Lottomatica Roma og Repesa þjálfaði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×