Hagfræðiprófessorinn Yanis Varoufakis verður fjármálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Grikklands sem kynnt verður í dag. Varoufakis er þekktur fyrir að vera berorður og að ekki liggja á skoðunum sínum.
„Sem næsti fjármálaráðherra mun ég tryggja að ég gangi ekki inn á fundi evruhópsins og leita lausna sem eru góðar fyrir gríska skattgreiðendur en slæmar fyrir þá írsku, slóvösku, þýsku, frönsku og ítölsku,“ segir Varoufakis, sem hefur áður verið ráðgjafi fyrrum forsætisráðherrans Giorgos Papandreou.
Varoufakis heitir því jafnframt að hætta því ekki að tjá sig um mikilvæg málefni, þrátt fyrir að eiga sæti í ríkisstjórn. „Menn segja að nú sé tíminn til að halda sér saman. Áform mín eru að hlusta ekki á slíkar ráðleggingar, heldur halda áfram að blogga, þrátt fyrir að það sé álitið óábyrgt fyrir fjármálaráðherra,“ segir Varoufakis á bloggsíðu sinni.
Sjá einnig: Kosningarnar í Grikklandi: ESB og Þjóðverjar líti í eigin barm
Búist er við að nýi forsætisráðherrann, Alexis Tsipras, leiðtogi vinstriflokksins Syriza, muni gera Panos Kammenos, leiðtoga samstarfsflokksins Sjálfstæðra Grikkja, að nýjum varnarmálaráðherra.
Að sögn á flokkur Kammenos að hafa samþykkt efnahagsmálastefnu Syriza við myndun ríkisstjórnar með Syriza gegn því að Tsipras hviki ekki frá harðri stefnu Grikklands í nafnadeilunni við Makedóníu og að flokkurinn hverfi frá hugmyndum sínum um aðskilnað ríkis og kirkju.
Hispurslaus hagfræðiprófessor nýr fjármálaráðherra

Tengdar fréttir

SYRIZA boðar nýtt upphaf
Þingkosningar fóru fram í Grikklandi í dag. SYRIZA bar stórsigur úr bítum samkvæmt útgönguspám.

Tsipras sver embættiseið
Alexis Tsipras sór embættiseið sem forsætisráðherra Grikklands á skrifstofu Grikklandsforseta fyrr í dag.

Kosningarnar í Grikklandi: ESB og Þjóðverjar líti í eigin barm
Eiríkur Bergmann Einarsson segir ESB nú þurfa að mæta þeirri staðreynd að eitt af aðildarríkjum hafi slitið sig frá því samkomulagi sem lagt var upp með að bjarga fjármálakerfi álfunnar.