Körfubolti

Frank Booker að spila sig inn í íslenska landsliðið?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frank Booker í leiknum gegn Texas Tech í gær.
Frank Booker í leiknum gegn Texas Tech í gær. vísir/getty
Frank Aron Booker átti sinn besta leik á tímabilinu í bandaríska háskólakörfuboltanum í gær þegar lið hans, Oklahoma Sooners, vann Texas Tech í Big 12-deildinni, 79-75, eftir framlengingu.

Frank Aron kom inn af bekknum og skoraði 17 stig, en hann hitti úr fjórum af átta þriggja stiga tilraunum sínum og setti niður fimm víti í fimm tilraunum. Þá stal hann tveimur boltum og gaf tvær stoðsendingar.

Þessi tvítugi bakvörður var kjörinn maður leiksins á heimasíðu Oklahoma, en hann spilaði 26 mínútur leiknum og var næst stigahæstur í liðinu.

Frank Aron er sonur Francs Bookers sem spilaði með ÍR, Val og Grindavík á árunum 1991 til 1995. Hann er gjaldgengur í íslenska landsliðið og gaf það út á dögunum að hann vildi fara með strákunum okkar til Berlínar á EM í sumar.

Craig Pedersen, þjálfari Íslands, bauð Frank Aroni á æfingar síðasta sumar en hann komst ekki vegna anna í skólanum.

„Það yrði að sjálfsögðu heiður fyrir mig að spila fyrir íslenska landsliðið og ef á mig yrði kallað myndi því kalli vera svarað,“ sagði hann í viðtali við karfan.is á dögunum.

Ef Frank Aron heldur áfram að spila svona verður erfitt fyrir Craig Pedersen að horfa framhjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×