Fótbolti

Íslensku stelpurnar náðu jafntefli á móti bandaríska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir í leiknum í kvöld.
Guðbjörg Gunnarsdóttir í leiknum í kvöld. Vísir/AFP
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta gerði markalaust jafntefli við Bandaríkin í þriðja og síðasta leik sínum í riðlakeppni Algarve-bikarsins í Portúgal í kvöld.

Þetta eru frábær úrslit hjá íslensku stelpunum sem hafa aðeins einu sinni áður náð jafntefli á móti bandaríska liðinu og það var fyrir að verða fimmtán árum síðan.

Íslensku stelpurnar létu eitt besta kvennalandslið heims finna vel fyrir sér í kvöld og skipulagður varnarleikur íslenska liðsins reyndist bandaríska liðinu óyfirstíganlegur að þessu sinni.

Íslenska liðið tapaði tveimur fyrstu leikjum sínum á móti Sviss (0-2) og Noregi (0-1) en náði þarna í sín fyrstu stig á mótinu.

Bandaríska liðið var miklu meira með boltann eins og búast mátti við en íslenska liðið lokaði svæðinu og varðist aftarlega.

Hólmfríður Magnúsdóttir fékk besta færi íslenska liðins undir lok fyrri hálfleiks en Hope Solo varði þá vel frá henni.

Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð í markinu og varði nokkrum sinnum mjög vel frá leikmönnum bandaríska liðsins.

Íslenska landsliðið hefur þurft að sætta sig við nokkur naum töp á móti bandaríska landsliðinu á Algarve á síðustu árum en að þessu sinni héldu íslensku stelpurnar og náðu að landa stigi á móti einu besta landsliði heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×