Fótbolti

Sara Björk: Þær eru allar eins og Guðný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Mynd/Skjáskot úr viðtali KSÍ
Sara Björk Gunnarsdóttir, var fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins sem náði jafntefli á móti Bandaríkjunum á Algarve-mótinu í gær.

„Þetta var hörkuleikur með mikið af návígum og hlaupum en skrokkurinn er bara ágætur," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir í viðtali við Þorvald Ingimundarson, starfsmanns KSÍ.

Sara Björk játaði því að leikurinn hafi verið þessi stríðsleikur sem þjálfari íslenska liðsins, Freyr Alexandersson, bjóst við og lagði upp með.

„Þær spila harðan bolta og eru í mjög góðu líkamlegu standi en það erum við líka. Mér fannst við vinna þá keppni í þessum leik í gær," sagði Sara.

Varnarleikur íslenska liðsins í leiknum var frábær og bandarísku stórstjörnurnar komust lítið áleiðis.

„Við lögðum upp með það að skipta leiknum niður í nokkra hluta, spila bæði lápressu og hápressu og skipta síðan á milli eftir fimmtán mínútur. Það gekk rosalega vel að spila lápressuna, við vorum mjög skipulagðar og vorum ekki að gefa þeim nein færi," sagði  Sara Björk.

„Við töluðum um það eftir leikinn að það hafi verið rosalega þægilegt að spila lápressuna á móti þeim. Við vorum í réttum stöðum, það var minna um hlaup og við vorum alveg með leikinn," sagði Sara.

Íslenska liðið er ekki búið að skora á mótinu en er það áhyggjuefni?  „Við erum búnar að vera að vinna mikið með varnarleikinn og ég held að sóknarleikurinn muni bara koma. Það hefur gengið frábærlega með varnarleikinn og nú þurfum við aðeins að skerpa betur á sóknarleiknum," sagði Sara Björk.

„Við þurfum að gera betur þegar við vinnum boltann og þurfum aðeins minna stress," segir Sara Björk en framundan er leikur á móti Japan um níunda sætið sem fer fram á morgun.

„Þær eru allar eins og Guðný en rosalega teknískar og rosalega góðar í fótbolta. Ég hef séð þær spila en landsliðið hefur aldrei spilað við þær áður. Það er áhugavert og skemmtilegt verkefni að fá að mæta þeim," sagði Sara Björk.

„Þetta eru heimsmeistararnir og svona leiki vill maður spila. Þetta mót hefur undanfarin ár verið frábær undirbúningur fyrir EM og HM. Það er frábært fyrir okkur að fá að koma á þetta mót og spila þessa stóru leiki," sagði Sara Björk en það má sjá allt viðtalið við hana hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×