Körfubolti

NBA: Curry bætti eigið þristamet í sigri Golden State | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stephen Curry hefur verið magnaður í allan vetur.
Stephen Curry hefur verið magnaður í allan vetur. vísir/getty
Golden State Warriors, besta liðið í NBA-deildinni, vann 64. leikinn sinn í nótt þegar liðið lagði Portland Trail Blazers á heimavelli, 116-105.

Stephen Curry, leikstjórnandi Golden State, fór langt með að innsigla að hann verði valinn besti leikmaður deildarinnar, en hann skoraði 45 stig og gaf 10 stoðsendingar.

Ekki nóg með það heldur skoraði hann átta þriggja stiga körfur úr 13 skotum og bætti í fyrri hálfleik eigið met yfir flestar þriggja stiga körfur á einum tímabili.

Hann hafði best skorað 272 þriggja stiga körfur tímabilið 2012/2013 en hann hefur nú í heildina skorað 276 þrista á tímabilinu og er að skjóta vel yfir 40 prósent fyrir utan teiginn.

Klay Thompson bætti við 26 stigum fyrir Golden State, en allt byrjunarlið toppliðsins skoraði yfir tíu stig. Eins og oft áður var LaMarcus Aldridge allt í öllu hjá Portland með 27 stig.

Stephen Curry skorar þriggja stiga körfu númer 273 á tímabilinu:


Í hinum leik næturinnar komst Chicago Bulls aftur á sigurbraut þegar liðið lagði Miami Heat að velli í Miami, 89-78.

Spænski kraftframherjinn Pau Gasol var atkvæðamestur gestanna með 16 stig og 15 fráköst. Hann leiðir deildina í tvennum á tímabilinu en tvennan í nótt var sú 51. hjá honum í vetur.

Derrick Rose spilaði 20 mínútur og skoraði 12 stig, en hann hitti aðeins úr 5 af 15 skotum sínum úr teignum og engu af þremur þriggja stiga skotum sínum.

Hassan Whiteside skoraði 19 stig fyrir Miami og tók 16 fráköst og Slóveninn Goran Dragic skoraði 15 stig fyrir heimamenn.

Chicago er í þriðja sæti austurdeidlarinnar en betri árangri getur liðið ekki náð á tímabilinu því það er 3,5 leikjum á eftir Cleveland þegar þrír leikir eru eftir.

Pau Gasol nær 51. tvennunni:


NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×