Körfubolti

Leonard frábær í sigri Spurs | Houston og Washington í góðum málum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leonard skoraði 32 stig í sigri San Antonio í nótt.
Leonard skoraði 32 stig í sigri San Antonio í nótt. vísir/afp
Nýkjörinn varnarmaður ársins, Kawhi Leonard, átti stórleik þegar San Antonio Spurs tók forystuna í einvíginu við Los Angeles Clippers í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA í nótt.

Leonard skoraði 32 stig í öruggum 27 stiga sigri meistaranna, 100-73, en Spurs leiðir einvígið 2-1.

Blake Griffin, sem skoraði 27,5 stig að meðaltali í fyrstu tveimur leikjum einvígisins, var aðeins með 14 stig í nótt og þá var Chris Paul einnig rólegur, með sjö stig og fjórar stoðsendingar.

Það var fátt um varnir þegar Houston Rockets bar sigurð af Dallas Mavericks í Texas-slagnum, 128-130. Houston er 3-0 yfir í einvíginu.

Dallas leiddi með sjö stigum í hálfleik, 72-65, en Houston var öflugt í 3. leikhluta sem vannst 27-36.

James Harden fór mikinn í liði Houston með 42 stig og níu stoðsendingar og þá var Dwight Howard með tröllatvennu, 13 stig og 26 fráköst.

Monta Ellis og Dirk Nowitzki skoruðu báðir 34 stig fyrir Dallas.

Washington Wizards komst í lykilstöðu í einvíginu við Toronto Raptors með sjö stiga sigri í höfuðborginni í nótt, 106-99.

Pólski miðherjinn Marcin Gortat skoraði 24 stig og tók 13 fráköst í liði Washington sem er komið í 3-0 í einvíginu.

John Wall átti einnig flottan leik með 19 stig og 15 stoðsendingar og þá gerði Paul Pierce 18 stig og setti niður tvær mikilvægar þriggja stiga körfur á lokakafla leiksins.

DeMar DeRozan var stigahæstur í liði Toronto með 32 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×