Þróttur hefur samið við Gambíumanninn Omar Alieu Koroma um að leika með liðinu í 1. deildinni í fótbolta.
Omar, sem er 25 ára gamall framherji, kemur frá Dulwich Hamlet á Englandi.
Hann var á sínum tíma á mála hjá Portsmouth, meðan félagið var í ensku úrvalsdeildinni. Hann náði þó aldrei að leika með liðinu en lék fimm leiki sem lánsmaður með Norwich í næstefstu deild á Englandi tímabilið 2008-09 áður en hann meiddist illa á ökkla.
Síðustu árin hefur Omar leikið með Forest Green Rovers og Dulwich Hamlet í neðri deildunum á Englandi. Hann lék tvo landsleiki fyrir Gambíu árið 2008.
Omar gæti leikið sinn fyrsta leik með Þrótti þegar liðið sækir HK heim í Kórinn á laugardaginn. Bæði lið eru með fullt hús stiga eftir tvo leiki í 1. deildinni í sumar.
