Körfubolti

Jordan gafst upp á Stephenson og sendi hann til Clippers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan og Lance Stephenson.
Michael Jordan og Lance Stephenson. Vísir/Getty
Lance Stephenson mun spila með Los Angeles Clippers í NBA-deildinni í körfubolta á næsta tímabil eftir að Clippers skipti á honum og tveimur leikmönnum Charlotte Hornets.

Los Angeles Clippers lét Hornets fá þá Spencer Hawes og Matt Barnes í staðinn en bæði Stephenson og Barnes þykja vera tveir af þeim óútreiknanlegustu i NBA-deildinni.

Lance Stephenson sló í gegn hjá Indiana Pacers en fékk betri samning hjá Charlotte Hornets síðasta sumar og sló til. Stephenson fann sig hinsvegar aldrei hjá liði Michael Jordan sem hefur nú losað sig við hann.

Stephenson var aðeins í byrjunarliðinu í 25 af 61 leik og undir lok tímabilsins fékk hann ekkert að spila. Hann var bara með 8,2 stig í leik og hitti aðeins úr 17 prósent þriggja stiga skota sinna sem er versta nýting NBA-sögunnar meðal þeirra sem hafa náð lágmörkum.

Stephenson var frábær hjá Indiana en vildi frekar fá 27 milljónir dollara fyrir þrjú ár hjá Charlotte en 44 milljónir fyrir fimm ár hjá Pacers. Pacers hækkaði ekki tilboð sitt og sá á eftir einum sínum mikilvægasta manni en Stephenson var með 13,8 stig, 7,2 fráköst og 4,6 stoðsendingar á síðasta ári sínum með Indiana.

Matt Barnes átti ágætt tímabil með Los Angeles Clippers (10 stig í leik) en hann er orðinn 35 ára gamall og átti bara eitt ár eftir af samningi sínum. Miðherjinn Spencer Hawes gerði fjögurra ára samning við Los Angeles Clippers síðasta sumar en fékk aldrei alvöru hlutverk hjá Doc Rivers á sínu fyrsta tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×