Körfubolti

Curry sendi móður Drazen Petrovic eina af treyjunum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Stephen Curry, varð á dögunum NBA-meistari í fyrsta sinn, þegar Golden State Warriors vann Cleveland í lokaúrslitunum en áður hafði Curry verið kosinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar.

Curry var með 26,0 stig og 6,3 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum sex í lokaúrslitunum þar sem að hann skoraði einnig 4,2 þrista að meðaltali í leik.

Stephen Curry ákvað það eftir lokaúrslitin að senda móður Drazen Petrovic eina af treyjunum sem hann klæddist í lokaúrslitunum á móti Cleveland Cavaliers.

Ástæðan var þó ekki bara vegna þess að Stephen Curry var mikill aðdáandi Drazen Petrovic heldur var móðir hans, Biserka Petrovic, hugsaði mjög vel um hann á meðan pabbi hans tók þátt í þriggja stiga skotkeppninni á Stjörnuhelginni 1992.

Fræg mynd er til að þeim feðgum, Dell og Stephen Curry, á meðan þriggja stiga keppninni stóð á Stjörnuhelginni í Orlando 1992 en rétt hjá þeim var umræddur Drazen Petrovic.

Drazen Petrovic lést aðeins sextán mánuðum síðar í bílslysi á hraðbraut í Þýskalandi. Petrovic var þá á hraðri uppleið og líklegur til að verða ein af stærstu evrópsku stjörnum NBA-deildarinnar. Petrovic skoraði 20,6 og 22,3 stig að meðaltali í leik á síðustu tímabilum sínum í NBA-deildinni.

Curry sendi treyju sína til Drazen Petrovic safnsins sem móðir hans rekur og þar fer hún líklega upp á vegg. Biserka Petrovic stóð fyrir opnun safnsins, The Drazen Petrovic Memorial Center, í Zagreb í Króatíu í júní 2006.

NBA

Tengdar fréttir

Kóngarnir af Akron

Körfuboltakapparnir Stephen Curry og LeBron James hafa slegið hvert metið á fætur öðru í úrslitakeppninni en þeir eiga fleira sameiginlegt en að vera að endurskrifa NBA-söguna og vera komnir með liðin sína alla leið í úrslitaleikina um NBA-meistaratitilinn. Golden State Warriors, lið Currys, getur tryggt sér fyrsta titil sinn í 40 ár með sigri á heimavelli Cleveland í sjötta leiknum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×