Körfubolti

Gasol verður áfram í Memphis | Gerði fimm ára samning

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gasol hefur verið í hópi bestu miðherja NBA-deildarinnar undanfarin ár.
Gasol hefur verið í hópi bestu miðherja NBA-deildarinnar undanfarin ár. vísir/getty
Spænski miðherjinn Marc Gasol hefur skrifað undir nýjan fimm ára samning við NBA-liðið Memphis Grizzlies. Samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar hefur Gasol staðfest þetta við spænska fjölmiðla.

Samningur Gasols var runninn út en nú er ljóst að hann verður áfram í Memphis. Nýji samningurinn, sem gildir til ársins 2020, gefur Gasol rúmlega 100 milljónir dollara í aðra hönd. Samkvæmt frétt AP ræddi Spánverjinn ekki við önnur lið en Memphis.

Gasol, sem er þrítugur, hefur leikið með Memphis frá árinu 2008 og verið lykilmaður í góðu gengi liðsins undanfarin ár. Síðasta tímabil var hans besta síðan hann kom inn í deildina en hann var með 17,4 stig, 7,8 fráköst og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur.

Frammistaða Gasols í vetur skilaði honum sæti í fyrsta úrvalsliði NBA, auk þess sem hann var valinn í stjörnulið Vesturdeildarinnar í annað sinn.

Gasol var valinn varnarmaður ársins í NBA árið 2013 en þá komst Memphis alla leið í úrslit Vesturdeildarinnar þar sem liðið tapaði fyrir San Antonio Spurs.

Memphis vann 55 leiki í vetur og komst í undanúrslit Vesturdeildarinnar þar sem Gasol og félagar biðu lægri hlut fyrir verðandi meisturum Golden State Warriors.

Eldri bróðir Marcs, Pau Gasol, leikur með Chicago Bulls en hann hóf NBA-ferilinn með Memphis.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×