Körfubolti

Lakers fær Roy Hibbert nánast gefins frá Indiana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hibbert er bæði með bandarískan og jamaískan ríkisborgararétt.
Hibbert er bæði með bandarískan og jamaískan ríkisborgararétt. vísir/getty
Miðherjinn Roy Hibbert er genginn í raðir Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta.

Lakers fékk Hibbert frá Indiana Pacers í skiptum fyrir valrétt í 2. umferð nýliðavalsins.

Hibbert lék með Georgetown háskólanum sem er þekktur fyrir að framleiða góða miðherja. Hann var valinn númer 17 í nýliðavalinu 2008 af Toronto Raptors sem skipti honum strax til Indiana.

Hibbert, sem er tröll að burðum (2,18 metrar á hæð og 132 kg), lék í sjö ár með Indiana var á þeim tíma tvívegis valinn í Stjörnulið Austurdeildarinnar.

Tímabilið 2011-12 var besta tímabil miðherjans en var hann með 12,8 stig, 8,8 fráköst og 2,0 varin skot að meðaltali í leik. Hibbert átti einnig góða úrslitakeppni fyrir tveimur árum þegar hann var með 17,0 stig og 9,9 fráköst að meðaltali í leik.

Þessar tölur hafa lækkað á síðustu árum en á síðasta tímabili var Hibbert með 10,6 stig og 7,1 frákast og spilaði aðeins 25,3 mínútur að meðaltali í leik.

Lakers var með fjórða versta árangur allra liða í NBA í vetur en aðeins Philadelphia 76ers, New York Knicks og Minnesota Timberwolves unnu færri leiki.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×